138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

áhrif fyrningar aflaheimilda.

123. mál
[12:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég skrifaði grein fyrir stuttu þar sem lokaorðin hjá mér voru um hvort ríkisstjórnin hefði reiknað til enda áhrif fyrningarleiðarinnar. Ég held að hæstv. ráðherra hafi nú svarað þeirri spurningu. Svo er ekki. Ríkisstjórnin setti mjög falleg orð niður í stjórnarsáttmála sinn í vor en gerir sér engan veginn grein fyrir því hvaða áhrif áætlun um innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda hefði. Nú eru hins vegar svörin komin hérna fram um að skuldir sjávarútvegsins eru í kringum 500 milljarðar, 450–500 milljarðar, og helmingur af þeim skuldum er hjá Landsbankanum. Landsbankinn er ekki að fara neitt, hann er í eigu ríkisins. Miðað við þær upplýsingar sem komu líka fram í ræðu ráðherrans hafa lánastofnanir verið viljugri til að koma til móts við óskir sjávarútvegsfyrirtækjanna vegna þess að það eru væntanlega þau fyrirtæki sem lánastofnanir meta sem lífvænlegust og líklegust til að geta staðið undir skuldum sínum — að því gefnu að þessi fyrirtæki hafi hráefni, hafi einhverja vöru til að selja og afla tekna.

Þegar ríkið ákveður að fara að fyrna aflaheimildirnar — eins og ráðherra orðaði það, ef það yrði nú vel staðið að verki — en hvað er „vel staðið að verki“? Við vitum það ekki, það eru engar upplýsingar um það þannig að núna horfum við bara fram á það að með þeirri leið sem ríkisstjórnin er búin að leggja upp verða hugsanlega lítil sem engin veð fyrir stórum hluta lánasafns íslenskra bankastofnana. Þurfa þá viðkomandi bankastofnanir ekki bara að afskrifa þessi lán? Hvað þýðir það? Ég tel að það þýði að við töpum hérna hugsanlega fleiri hundruð milljörðum af skattfé sem við erum búin að leggja inn í bankana. Þetta er sú atvinnugrein sem ríkisstjórnin segir (Forseti hringir.) að eigi að vera lykillinn að endurreisn íslensks atvinnulífs. Ég bara lýsi enn á ný yfir (Forseti hringir.) miklum áhyggjum af því að menn skuli ekki geta svarað þeim einföldu spurningum sem ég bar fram.