138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

áhrif fyrningar aflaheimilda.

123. mál
[12:54]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Ég held að ég verði að endurtaka það sem ég lauk máli mínu á í fyrri umferð og vekja athygli á því að hvaða leið svo sem verður farin við fyrningu aflaheimilda eða við löggjöf um það hvernig kvótum verður úthlutað í framtíðinni liggur auðvitað fyrir að heildarafli á Íslandsmiðum fer ekki eftir því og þar af leiðandi ekki heildartekjur íslensks sjávarútvegs og þar af leiðandi ekki það hversu mikið íslenskur sjávarútvegur hefur í grunninn til að greiða allan kostnað, þar á meðal auðlindagjöld eða það sem hann borgar fyrir aflaheimildir. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt að teikna þessa fyrningarleið upp með horni og hala þannig að hún leiði sjálfkrafa til þess að íslenskur sjávarútvegur leggist af. Það liggur bara í hlutarins eðli að hann verður (EyH: Bankarnir leggjast af.) blómlegur hér eftir sem áður. Það er auðvitað ekki í hag neins, hvorki bankanna né íslenska ríkisins, að teikna þessa leið þannig upp að hún leiði til einhvers glundroða eða fjöldagjaldþrota í greininni, það kemur einfaldlega ekki til greina.

Það heyrir ekki undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið heldur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið að útfæra þessa leið en ég hef fulla trú á því að þeim sem þar halda um stjórnvölinn muni takast þetta og að sjálfsögðu í góðu samráði við þá sem starfa í greininni.

Að lokum vil ég aðeins bregðast við því sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson ræddi um vexti og sérstaklega vaxtaálag. Ég get alveg tekið undir að það er ákveðið vandamál að íslensku bankarnir hafa ekki aðgang að erlendu lánsfé og geta þar af leiðandi ekki lánað það til aðila eins og sjávarútvegsfyrirtækja sem þó er eðlilegt að taki erlend lán, þ.e. ekki nema með mjög óhagstæðum vöxtum. Þetta er ekki hægt að laga nema með því að laga almennt aðgengi íslenska fjármálakerfisins (Forseti hringir.) að erlendum fjármálamörkuðum.