138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

ein hjúskaparlög.

202. mál
[12:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Anna Pála Sverrisdóttir) (Sf):

Frú forseti. Íslenska ríkið mismunar fólki enn þá eftir kynhneigð. Að vísu hefur mjög margt gerst í réttindabaráttu samkynhneigðra á allra síðustu árum og það er auðvitað frábært, en nú er hins vegar svo komið að við erum á eftir mörgum Evrópulöndum. Það sem ég vil gera í því er að lög um hjúskap gagnkynhneigðra, nr. 31/1993, og staðfesta samvist samkynhneigðra, nr. 87/1996, verði sameinuð í ein hjúskaparlög og að lífssamböndum fólks verði ekki mismunað með ólíkum nöfnum eftir kynhneigð, eins og séra Sigríður Guðmarsdóttir hefur orðað það svo ágætlega.

Einnig vil ég fá að vitna í annan fræðimann, prófessor emeritus Ármann Snævarr, þann ágæta og framsýna mann sem skrifaði ritið Hjúskapar- og sambúðarréttur þar sem hann talar um hollenska löggjöf frá 2002 sem lögfestir að einstaklingar af sama kyni geti fengið hjónavígslu, með leyfi frú forseta:

„Hugmyndafræðilega er hér byggt á algjöru jafnrétti og að afnema eigi allan lagalegan mun á hjónum og samvistarmökum. Verði einstaklingar í báðum hópum nefndir gift fólk.“ Svo segir Ármann Snævarr: „Þessar hugmyndir hljóta að verða til umræðu á næstunni.“

Já, frú forseti, það er ágætlega mælt af því að það er auðmýkjandi fyrir samkynhneigða að mismunandi lög gildi um mann eftir því hvort maður elskar strák eða stelpu, það er bara þannig.

Annað mál er síðan hvort fólk hefur almennt trú á stofnuninni hjónabandi og við getum líka rætt hvort einstök trúfélög eigi að hafa vígsluleyfi sem tengt er lagalegum réttindum. Það er kannski bara önnur umræða. Það sem við stöndum frammi fyrir núna er sú mismunun sem á sér stað í íslenskri löggjöf.

Stjórnarsáttmáli Samfylkingar og Vinstri grænna er skýr um það atriði að sameina eigi hjúskaparlöggjöfina í eina svo þetta ætti samkvæmt honum að vera tímaspursmál, tiltölulega auðvelt. Mál um þetta var flutt á 135. löggjafarþingi svo ég spyr einfaldlega hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra:

Hvað líður setningu einna hjúskaparlaga óháð kynhneigð? Hér hlýtur að vera lykilspurning: Munu samkynhneigð pör geta gift sig 10.10.2010?