138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

ein hjúskaparlög.

202. mál
[12:59]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina. Eins og hv. þm. Anna Pála Sverrisdóttir bendir á kemur í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna fram sú stefna að ein hjúskaparlög verði lögfest. Þannig er stefnt að því að hjúskaparlög eigi að ná jafnt til hjúskapar karls og konu og hjúskapar tveggja einstaklinga af sama kyni, en eins og bent hefur verið á taka hjúskaparlög samkvæmt gildandi lögum til hjónabands karls og konu en lög um staðfesta samvist taka til tveggja einstaklinga af sama kyni.

Réttaráhrif hjúskapar annars vegar og staðfestar samvistar hins vegar eru þau sömu að meginstefnu til. Þó eru ákveðin atriði sem skilja á milli þessara tveggja forma og brýn réttarbót að samræma þau réttaráhrif sem þessu sambúðarformi fylgja þannig að allir séu jafnir fyrir lögunum, hvort sem einstaklingar í hjúskap eru af gagnstæðu eða sama kyni. Að því er nú stefnt, samanber það sem kemur fram í fyrrnefndri samstarfsyfirlýsingu. Lög um hjúskap falla undir málefnasvið dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og því verður unnið að þessari breytingu innan þess ráðuneytis.

Í því efni þarf að skoða tvær leiðir, annars vegar að breyta hjúskaparlögum með þeim hætti að hjúskapur taki til sambands karls og konu og einstaklinga af sama kyni. Þá yrði jafnframt að skoða hvort fella ætti úr gildi lög um staðfesta samvist. Hins vegar þarf að skoða hvort framkvæma eigi heildarendurskoðun á hjúskaparlögum. Í því sambandi þyrfti að huga að viðurkenningu erlendis á hjúskap einstaklinga af sama kyni, auk þess sem huga þarf að því hvort og þá hvernig vígslu slíkra hjónaefna skuli háttað.

Þá þarf að kanna stöðu þeirra sem nú þegar hafa fengið samvist sína staðfesta. Þetta leiðir auðvitað allt að sömu niðurstöðunni, en það er að ýmsu að huga og ráðuneytið er um þessar mundir að skoða norræn lög, t.d. breytingar í þessa veru á hjúskaparlögum Norðmanna sem tóku gildi 1. janúar 2009 og breytingu á hjúskaparlögum í Svíþjóð sem tóku gildi þann 1. maí sl. Við lagasetningu hér á landi hefur einkum verið litið til reglna á Norðurlöndunum.

Hvort sú dagsetning sem hv. þingmaður nefnir á eftir að verða að veruleika verður tíminn að leiða í ljós en ég get fullyrt hér að það er unnið að þessu máli í ráðuneyti dómsmála og mannréttinda.