138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

hagnýting orku sjávarfalla.

121. mál
[13:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Nýting sjávarfalla á sér langa sögu í Evrópu, allt frá miðöldum, en þrátt fyrir það er nýting sjávarfalla til raforkuframleiðslu ekki almenn og eru einungis nokkur dæmi um slíkt í heiminum í dag. Það gæti þó vonandi breyst á komandi árum þar sem tilraunaverkefni um þessi mál eru í gangi víðs vegar um heiminn og mikil þróun á sér stað á þeim búnaði sem til þarf til að nýta sjávarfallaorku.

Ein af náttúruauðlindum okkar Íslendinga sem lítill gaumur hefur verið gefinn hingað til er sú orka sem býr í straumum og sjávarföllum við stendur landsins og í hafinu í kringum okkur. Hér á landi er hæðarmunur sjávarfalla mikill og hann er mestur við vesturströndina, við Breiðafjörð, og hefur sérstaklega verið horft til mynnis Hvammsfjarðar að þessu leyti. Þar er hæðarmunur mikill.

Sjávarfallaorka hefur þann kost fram yfir bæði vind- og sólarorku að vera mun fyrirsjáanlegri orkuuppspretta. Sveiflur í straumhraða sjávar eftir flóði og fjöru eru vel þekktar og stjórnast þær af sjávarföllum sem eru sjávarbylgja sem eins og allir vita stafar af aðdráttarafli tunglsins og að litlu leyti sólarinnar á jörðina. Sjávarfallaorka er því algjörlega sjálfbær, algjörlega umhverfisvæn að auki og er sú orka sem við ættum kannski að líta til nú um stundir. Mjög snjallt væri að nota þetta til að umbreyta sjávarstraumi í rafmagn sem okkur vantar alltaf.

Það er hægt að virkja sjávarföll með tvennum hætti, annars vegar með því að stífla sund og firði og virkja hæðarmun sjávarfallanna og hins vegar að virkja hreyfiorku straums eða streymisins sjálfs án þess að hindra streymið. Er því, eins og ég sagði áðan, um að ræða óbeislaða auðlind hér við land. Því langar mig til að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra:

1. Hefur ráðherra gert ráðstafanir til þess að láta rannsaka á hvern hátt megi hagnýta orku sjávarfalla til styrktar þjóðarbúinu í framtíðinni?

2. Ef svo er, hefur Hvammsfjörður verið skoðaður sérstaklega í þessu sambandi þar sem aðstæður eru svo góðar þar?