138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

hagnýting orku sjávarfalla.

121. mál
[13:27]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir að bera fram þessa spurningu og jafnframt þakka ég hæstv. iðnaðarráðherra fyrir greinargóð svör. Við Íslendingar eigum mikil tækifæri og þau felast í orkunýtingu og jafnframt því að finna og leita nýrra leiða til að afla enn meiri orku. Virkjun sjávarfallanna er mjög spennandi verkefni sem kallar á enn frekari rannsóknir og þróunarstarf og það er gríðarlega ánægjulegt að unnið sé að þeim málum á Íslandi. Það skiptir okkur svo miklu máli að leggja ekki af þróunarstarf og rannsóknir þrátt fyrir að hér sé efnahagslægð vegna þess að rannsóknir og þróun geta orðið og eiga að vera ein af þeim grunnstoðum sem íslenskt samfélag byggir á. Mikilvægi þess er meðal þess sem rætt var við mitt borð á þjóðfundinum og þess vegna fagna ég því mikla starfi sem enn er í gangi og hlakka til að fylgjast með því hvernig þessu muni reiða af.