138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

hagnýting orku sjávarfalla.

121. mál
[13:30]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað. Það er alveg klárt að við eigum eftir að ræða meira um þessi mál þegar fram líða stundir, þ.e. möguleika í nýtingu sjávarfalla til að framleiða rafmagn. Ég er alveg sammála hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur um að það sé mikilvægt að leggja ekki af rannsóknar- og þróunarstarf þrátt fyrir efnahagsástandið. Það er einmitt það sem þessi ríkisstjórn er að gera og ef eitthvað er erum við að gefa í í því efni að styðja enn frekar við rannsóknir og þróun á nýsköpun hér á landi. Við sjáum alveg stórkostlega útkomu úr þeim geira hvað fjölda nýrra starfa varðar. Þess vegna höfum við lagt fram frumvörp um endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði innan fyrirtækja og sömuleiðis frumvarp um ívilnanir vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum. Þetta mun hafa gríðarlega jákvæð áhrif og eftir þessu (Gripið fram í.) hefur lengi verið beðið. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson lagði þetta til í frumvarpi á árinu 2004. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég hefði ekki búist við að þessi umræða skapaði slíkan óróleika en svona er nú það. (Gripið fram í.) Það sem skiptir máli er að nýsköpun á þessu sviði er sívaxandi. Það er rétt sem hv. fyrirspyrjandi kom inn á. Nýsköpun á sviði orku- og umhverfismála og orku- og umhverfistækni er sístækkandi hluti nýsköpunar á Íslandi og sömuleiðis sprotafyrirtæki. Það var ánægjulegt að sjá á sprotaþingi hvað þessi þáttur er vaxandi. Ástæðan er einföld. Um allan heim er út af loftslagsmálum horft til þess að nýta betur þá orku sem þegar er aflað. Í þessum efnum er líka horft til þess að bæði innan Evrópusambandsins og í Bandaríkjunum er unnið mjög hratt að nýsköpun í þeim efnum og þar eigum við auðvitað bæði að fylgjast vel með og leggja okkar af mörkum til þess sem þar er að gerast. Þarna tel ég (Forseti hringir.) að sóknarfæri okkar liggi á allra næstu árum, í umhverfis- og orkutækni. (Gripið fram í.)