138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

launabónusar -- Icesave -- umsókn að ESB -- kyndingarkostnaður.

[13:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla hvorki að ræða um Evrópusambandið né Icesave. Mig langar undir þessum lið til að vekja athygli á fréttatilkynningu frá Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum. Í henni komu fram afskaplega sláandi upplýsingar, m.a. að það munar orðið 336% á kyndingarkostnaði í dreifbýli miðað við á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þetta er alveg gríðarlegur munur. Jafnframt kemur fram í þessari fréttatilkynningu að taxti á kyndingu í dreifbýli er 6,70 kr. Það sem kostar að kynda á Stór-Reykjavíkursvæðinu eru 2 kr., sem sagt 336% munur.

Í fjárlagafrumvarpinu sem er áætlað fyrir árið 2010 kemur fram að við ætlum að skerða þessar greiðslur um 80 millj. kr., það er niðurskurður á niðurgreiðslum til húshitunar, og ef við tökum verðlagsþáttinn líka inn í það erum við að tala þarna um 200 millj. Það er í kringum 20% niðurskurður til viðbótar. Þegar á þessu ári er búið að hækka rafmagnið um 20% og ég tel, frú forseti, að ef ekki verður gripið þarna inn í sé verið að raska búsetuskilyrðum. Bara til að árétta það heyrði ég í fullorðnum hjónum heima um síðustu helgi sem sögðu mér þær fréttir að nú væru þau, þetta ágæta fólk, að lenda í fátæktargildru. Það býr í eigin húsnæði, er búið að fá skerðingu á ellilífeyrinn og ofan á allan þennan rafmagnskostnað er þetta blessaða fólk að (Forseti hringir.) lenda í fátæktargildru.