138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

launabónusar -- Icesave -- umsókn að ESB -- kyndingarkostnaður.

[13:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég missti reyndar af bróðurpartinum af fyrri ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar en miðað við það sem hann segir í sinni síðari ræðu held ég að ég geti brugðist við með þeim hætti að ég og ég hygg flokksfélagar mínir í Sjálfstæðisflokknum séum reiðubúnir að taka umræðu um þessi mál. Það er sameiginlegt markmið okkar að tryggja að hér rísi á rústunum heilbrigt bankakerfi þar sem gagnsæi ríkir og ekki eru innbyggðir hvatar til að taka óskynsamlegar ákvarðanir. Ég held að við séum öll sammála um það. Ég lýsi því a.m.k. yfir fyrir mína hönd að ég er reiðubúinn til að skoða þau mál sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson vék að.

En varðandi önnur mál sem hér hafa verið í umræðunni held ég að þegar við stöndum frammi fyrir ábyrgð í sambandi við Icesave-málið eru auðvitað í gangi ýmsar rannsóknir, m.a. á vegum þingsins og vegna ákvarðana þess um rannsóknarnefnd og sérstakan saksóknara, sem fela það í sér að leiða í ljós ábyrgð í þessu sambandi. Ábyrgð einstakra manna á Íslandi á tilurð Icesave-reikninganna og hvernig með þá var farið leiðir að mínu mati ekki til þess að hægt sé að samþykkja hvaða samkomulag sem er við Breta og Hollendinga í þessu máli. Mér finnst það veik rök fyrir stuðningsmenn Icesave-samninganna og þeirra frumvarpa um ríkisábyrgð sem hér hafa verið borin fram að vísa til ábyrgðar einhverra ótilgreindra einstaklinga á Íslandi og segja: Þar af leiðandi verðum við Íslendingar að ganga að kröfum Breta og Hollendinga. Mér finnst það ekki tæk röksemdafærsla. Við verðum að fara yfir efnisatriði málsins, hver okkar lagalega skuldbinding er, hvernig með hana er farið, hvernig við getum tryggt hagsmuni Íslands í sambandi við uppgjör þessara mála og það tel ég, og það mun koma betur fram í umræðunum á morgun, að ríkisstjórn Íslands hafi ekki gert.