138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

launabónusar -- Icesave -- umsókn að ESB -- kyndingarkostnaður.

[13:55]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég tek undir þau ummæli sem hv. þm. Birgir Ármannsson hafði uppi vegna umræðu um launakjör og bónusa í bankakerfinu. En ég vil víkja aftur að umræðunni um ESB og umsóknarferli því sem nú stendur yfir.

Mat mitt er að í ljósi þeirra ummæla sem fallið hafa af hálfu ýmissa þeirra sem styðja þessa ríkisstjórn, bæði ráðherra og þingmanna, hefur komið í ljós að það eru meiri og deildari meiningar um þetta mál en í raun og veru glitti í hér í sumar og menn sáu. Maður mátti ætla að þegar ferlið væri komið af stað mundi það ganga fram, menn mundu klára það, klára samningana og svo mundi þjóðin koma að málinu. En nú hafa bæst við yfirlýsingar tveggja hæstv. ráðherra frá því í sumar um að rétt væri að stöðva ferlið, ef ekki fæst nægilega góður samningur að þeirra mati, yfirlýsingar sumra hv. þingmanna sem ætla að beita sér af krafti gegn öðrum stjórnarflokknum í málinu til að reyna að stöðva þetta ferli.

Allt þetta hlýtur að veikja samningsstöðu okkar Íslendinga og enn á ný hlýt ég að benda á það, frú forseti, hversu heilladrýgra það hefði verið ef við Íslendingar hefðum farið að þeim ráðum sem við sjálfstæðismenn settum fram og farið í gegnum þetta þannig að þjóðin hefði sagt til um hvort hún hefði viljað sækja um aðild eða ekki. Þá hefðum við komið sameinuð til leiks, við hefðum komið til samninga með sterka samningsstöðu með þjóðina að baki okkur og um leið skýra og klára kröfu um að slíkur samningur komi til baka og þjóðin fái að greiða þar atkvæði um. En sú staða kann að koma upp að samningurinn komi ekki aftur til Íslands, að þjóðin fái ekki að segja skoðun sína eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði einmitt að væri forsenda þess að hann hefði stutt málið, að þjóðin fengi að lokum að segja sitt álit. Þess vegna hefði verið heilladrýgra að fara okkar leið og það kemur núna fram að menn sjái jafnvel fram á að þetta ferli tefjist. Það hefur reyndar komið fram hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur að hún hefur ekki miklar áhyggjur af því. Þá spyr maður sig: Hefði ekki verið skynsamlegra (Forseti hringir.) að gefa sér svolítið meiri tíma, fara í gegnum slíka atkvæðagreiðslu og hafa hreint og klárt umboð á bak við samninganefndina en ekki það umboð (Forseti hringir.) sem greinilega er algjörlega í tætlum og í fullkominni rúst?