138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

launabónusar -- Icesave -- umsókn að ESB -- kyndingarkostnaður.

[14:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við upplifum hér mikinn hringlandahátt af hálfu stjórnarflokkanna. Annar flokkurinn, Vinstri grænir, segir eitt og hinn flokkurinn, Samfylkingin, segir allt annað. Við sjálfstæðismenn teljum ljóst að þetta ferli er farið af stað og þá verðum við að gæta íslenskra hagsmuna. Ég tel ríkisstjórnina ekki vera að gæta íslenskra hagsmuna með framkomu sinni þar og eins varðandi ESB-umsóknarferlið. Ég verð að segja það eins og er.

Ég var á sama fundi og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir í Brussel þar sem hæstv. utanríkisráðherra sat ásamt Olli Rehn og fleirum og talaði sérstaklega um hvað íslenskur sjávarútvegur væri góður, að við hefðum lært af mistökum okkar í gegnum tíðina og værum núna með sterkan sjávarútveg. Ég spyr þá: Samræmist það íslenskum hagsmunum meðan við erum í umsóknarferli um inngöngu í ESB að fara að kollvarpa fiskveiðistjórnarkerfinu hér heima? Ég segi nei. Utanríkisráðherrann segir það sjálfur. Við erum með sterkt sjávarútvegskerfi en á sama tíma og við erum að hefja umsóknarferlið, aðildarviðræðurnar, er verið að kollvarpa fiskveiðistjórnarkerfinu hér heima.

Ég undirstrika að ég tel mikilvægt að við förum þessa leið á enda, að við klárum samningsferlið allt og gætum okkar ýtrustu hagsmuna sem liggja náttúrlega fyrst og fremst á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs. Að því verðum við að huga, en ég er algjörlega mótfallin því að setja málið fram með þeim hringlandahætti sem ýmsir stjórnarþingmenn hafa gert, að það eigi að fara að draga aftur umsóknina til Evrópusambandsins. Mér finnst það lýsa mikilli vitleysu og miklu óraunsæi í allri utanríkispólitík Íslendinga. Við verðum að klára þetta ferli, gera það af reisn og láta síðan þjóðina ráða. Við eigum ekki að vera feimin við það.