138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

fjárhagsleg endurskipulagning rekstrarhæfra fyrirtækja.

[14:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þannig var á fyrri hluta þessa árs að flest benti til þess að viðskiptabankarnir þrír, hinir nýju, yrðu allir í eigu ríkisins. Það var þá þegar ljóst að stærsta verkefni þessara banka, án efa stærsta verkefni þeirra þegar þeir hefðu að fullu tekið til starfa, yrði fjárhagsleg endurskipulagning rekstrarhæfra fyrirtækja og meðferð skuldaúrvinnslu, bæði fyrirtækja og einstaklinga. Auðvitað hefur skipt miklu máli að kortleggja þennan vanda sem best og undirbúa að við honum yrði brugðist, að verkferlar yrðu til staðar til að takast á við verkefnið og þar fram eftir götunum. Í fyrravor var fenginn breskur sérfræðingur í fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja til þess að fara yfir getu viðskiptabankanna þriggja til að takast á við þetta verkefni, takast á við úrvinnslu þeirra fyrirtækja sem væru í viðskiptum við bankana og þyrftu á slíkri endurskipulagningu að halda.

Hluti þessa mats fólst í því að meta annars vegar umfang vandans og ekki síður að meta hvort bankarnir væru í stakk búnir til þess að takast á við fjárhagslega endurskipulagningu allra þeirra fyrirtækja sem þess mundu við þurfa á tiltölulega stuttum tíma.

Í stuttu máli varð niðurstaðan sú að nægileg þekking væri til staðar í bönkunum þremur en að vinnslustig væru mismunandi sterk og það væru ýmsir flöskuhálsar til staðar sem taka þyrfti á. Frá því að þetta var hafa þessi vinnuferlar verið slípaðir og bankarnir hafa undirbúið sig að þessu leyti, eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmenn hafi fylgst með.

Niðurstaðan er sú að bankarnir væru kannski betur í stakk búnir en talið var í upphafi til að takast á við viðfangsefnið sem slíkt en þyrftu að bæta ýmislegt í vinnubrögðum sínum. Mörg fyrirtæki hafa nú þegar farið í gegnum eða eru í slíku endurskipulagningarferli, eru í vinnsluferli. Ég hvet hv. þingmann, nefndarmenn í viðkomandi nefndum o.s.frv., sem á því hafa áhuga að heimsækja einfaldlega bankana og fá kynningu á þessum ferlum. Það er afar gagnlegt og ég vona að þá sjái menn að fólk er almennt þar eins og annars staðar að reyna að gera sitt besta við erfiðar aðstæður.

Með lögum um eignaumsýslufélag sem hér voru samþykkt í sumar var sömuleiðis ætlað að bæta við einni stoð í þetta verkefni. Þróunin varð í þá átt að eignaumsýslufélagið yrði fyrst og fremst ráðgefandi fyrirtæki, það gæti aðstoðað með ráðgjöf við fjárhagslega endurskipulagningu og sett viðmið sem menn gætu haft til hliðsjónar. Einnig að sjálfsögðu að félagið gæti yfirtekið umsýslu á fjárhagslega mikilvægum fyrirtækjum og endurskipulagt þau og var sérstaklega horft til, a.m.k. í upphafi, þjóðhagslega mikilvægra fyrirtækja eða fyrirtækja sem væru í viðskiptum hjá mörgum bönkum hverra mál væru flókin úrvinnslu og þar fram eftir götunum. Eignaumsýslufélagið hefur ekki enn verið formlega stofnað, ákveðið var í haust að láta það hafa forgang að stofna Bankasýsluna, koma henni á fót og í starfhæft ástand. Það hefur nú verið gert. Bankasýslan hefur tekið til starfa og hefur tekið við eignarhlut ríkisins í viðskiptabönkunum þremur eins og hann er í hverju tilviki. Í framhaldi geri ég ráð fyrir því að eignaumsýslufélagið verði nú sett á fót og í framhaldinu tekin ákvörðun um hvort því verður fundinn staður eins og heimilt er samkvæmt lögum undir Bankasýslunni eða það verður látið starfa sem sjálfstæð stofnun til hliðar við hana.

Bankasýslan hefur nú það hlutverk með höndum að vera eignarhaldari ríkisins gagnvart fjármálastofnunum og fer með það hlutverk sitt samkvæmt lögum. Eitt af því er að fylgja því eftir að eigendastefna ríkisins sem mótuð hefur verið gagnvart fjármálafyrirtækjum sé virt. Þar hefur ríkið sett sér skýr viðmið, m.a. um hluti eins og gagnsæi, um að skilvirkir verkferlar séu til staðar þegar unnið er úr skuldavanda fyrirtækja, þegar kemur að sölu fyrirtækja o.s.frv.

Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að slíkir ferlar séu skilvirkir og gagnsæir og birtir á heimasíðum fyrirtækjanna. Við þetta ættu fjármálafyrirtæki að hafa til hliðsjónar álit Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2008, ákvarðanir banka og stjórnvalda um framtíð fyrirtækja á samkeppnismörkuðum.“

Það segir einnig að sérstaklega skuli gæta þess að jafnræði sé viðhaft í öllum störfum gagnvart viðskiptavinum og farið eftir þessum skilgreindu ferlum og verklagi. Svona hefur verið reynt að standa að því að tryggja sem best að þau grundvallarviðmið, sem eigendastefnan setur í raun og veru, séu virt í framkvæmd og Bankasýslan (Forseti hringir.) hefur það hlutverk með höndum að fylgja því eftir að svo sé gert í þeim fjármálafyrirtækjum sem ríkið á eignarhlut í.