138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

þjónustusamningur við Ríkisútvarpið ohf.

136. mál
[14:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Þessi fyrirspurn snertir Ríkisútvarpið ohf. en það er stofnun í eigu ríkisins og hefur eins og mönnum er kunnugt oft verið bitbein margra og mjög skiptar skoðanir hafa verið um stofnunina í gegnum tíðina. Ég held að við getum öll tekið undir að meginhlutverk Ríkisútvarpsins er á sviði almannaþjónustu, að rækta öryggishlutverkið og öfluga fréttaþjónustu samhliða því að rækta menningarhlutverkið. Ég held að þótt allir hafi sínar skoðanir á þessu hafi Ríkisútvarpinu tekist ágætlega upp á síðustu árum.

Varðandi það sem hefur verið gert á síðustu árum og má gagnrýna að hefði mátt gera fyrr var einmitt að skýra og skerpa þetta hlutverk, að forgangsraða fjármunum innan stofnunarinnar. Þess vegna var ákveðið á sínum tíma, fyrir mína tilstuðlan sem ráðherra, að fara í svokallaðan þjónustusamning við Ríkisútvarpið til þess að reyna að niðurnjörva hlutverk Ríkisútvarpsins betur en áður hafði verið. Það er engin tilviljun að farið var að forgangsraða fjármunum eða að Ríkisútvarpið hætti t.d. með margumrædda og vinsæla formúlu, enska boltann. Við sjáum núna aukningu á innlendu framleiddu efni í Ríkisútvarpinu, og reyndar á öðrum stöðvum líka, samhliða því að við jukum framlag til Kvikmyndasjóðs þar sem sérstök áhersla var lögð á einmitt sjónvarpssjóðinn í samvinnu við kvikmyndagerðarmenn og núna sjáum við öfluga innlenda framleiðslu. Við höfum rætt hana áður varðandi t.d. Hamarinn , Fangavaktina , Ástríði og fleiri þætti.

Ég vil spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort ekki sé búið að gera úttekt á þessum þjónustusamningi. Uppfyllir Ríkisútvarpið ekki þær kröfur sem voru gerðar til útvarpsins? Má enn frekar herða á þeim kröfum? Hafa þau skilyrði verið uppfyllt sem voru sett varðandi framleitt innlent efni, ákveðinn hluta norræns efnis í íslensku sjónvarpi og barnaefni? Sem foreldri get ég alla vega sagt að ég tel að Ríkisútvarpið hafi staðið sig með miklum sóma þegar kemur að barnaefni, bæði varðandi þýðingar og það hvernig þeir miðla efninu. Mikilvægt er að tekið sé á þessu þannig að menn átti sig á því í hvað fjármunir fara innan Ríkisútvarpsins og það verði dregið fram með ákveðinni úttekt.

Ég vil líka gjarnan fá að heyra skoðanir hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra varðandi hvort eigi að takmarka auglýsingar Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði. Við stöndum núna frammi fyrir því að auglýsingamarkaðurinn er mun minni og smærri en áður. Er þá rétt (Forseti hringir.) að Ríkisútvarpið haldi áfram sínum hluta á auglýsingamarkaði? Er ekki rétt og tímabært samhliða endurskoðun á nýjum fjölmiðlalögum að menn skoði (Forseti hringir.) hlutverk Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði?