138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

þjónustusamningur við Ríkisútvarpið ohf.

136. mál
[14:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda og hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu. Hvað varðar það sem hér hefur verið nefnt um eigendastefnu lít ég svo á að sá hópur sem nú á að skila af sér muni gegna þar ákveðnu hlutverki. Ég hef orðað það við hv. menntamálanefnd að taka upp málefni Ríkisútvarpsins á þverpólitískum vettvangi og tel að það fari líka saman við það sem lagt er til í frumvarpi um fjölmiðla að pólitískur hópur komi að því sem hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir nefnir og taki fyrir eignarhald á fjölmiðlum og fjölmiðlamarkaði. Eins og ég hef sagt á öðrum vettvangi fannst mér mjög nauðsynlegt að allir flokkar tækju þátt í því, miðað við þær breyttu aðstæður sem við búum við á fjölmiðlamarkaði og í samfélaginu almennt.

Af því að hér voru nefnd launakjör vil ég einnig taka fram að laun innan Ríkisútvarpsins hafa verið lækkuð og laun yfir 300 þús. kr. og laun æðstu yfirmanna meira en annarra. Þar eiga líka væntanlega eftir að hafa áhrif lög um kjararáð sem miða að því að laun yfirmanna stofnana ríkisins verði ekki yfir launum forsætisráðherra. Ég vil því minna á að þau lög eru í raun og veru ekki enn komin til framkvæmda en væntanlega eiga þau eftir að hafa áhrif.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að sem best sátt náist um Ríkisútvarpið. Þetta er almannaútvarp og það hefur feikilega mikilvægu hlutverki að gegna en það er líka mikilvægt, eins og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson kom inn á, að hér sé heilbrigt og öflugt fjölmiðlaumhverfi almennt. Ég held hins vegar að sterkt almannaútvarp sé ákveðinn lykill að slíku umhverfi þannig að ég held að þar fari markmiðin saman.

Að lokum vil ég þakka fyrir umræðuna og ég lít svo á að þegar þessar rekstrarforsendur skýrast munum við að sjálfsögðu fara mjög ítarlega yfir þjónustusamninginn. Ég vil líka ítreka að ég lít á þetta sem samskiptatæki í ákveðinni þróun í nýju umhverfi Ríkisútvarpsins og það skiptir máli að við þróum það áfram til að koma því sem best til skila þannig að Ríkisútvarpið geti sem best sinnt sínu hlutverki og (Forseti hringir.) staðið undir þeim kröfum sem við gerum til þess.