138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

kynning á breyttu fyrirkomulagi í 10. bekk.

137. mál
[14:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Eins og menn vita hafa átt sér stað umfangsmiklar breytingar á skólakerfinu. Við náðum þverpólitískri samstöðu um að fara út í ákveðnar breytingar á skólakerfinu, frá leikskóla og upp í háskóla, og við höfum sett rammalöggjöf, m.a. á háskólastigi o.s.frv. Mikil vinna fór fram í nokkur missiri varðandi nýja grunnskólalöggjöf sem nú liggur fyrir. Við afgreiddum hana fyrir rúmu ári þar sem náðist þverpólitísk samstaða og það er vel, í öllum stórum meginatriðum, m.a. voru samræmdu prófin í 10. bekk aflögð. Það höfðu heyrst háværar raddir um, sem mér heyrðist á sínum tíma menn taka undir, að afnema samræmdu prófin eins og þau lágu fyrir, af því þau voru orðin of stýrandi í kennslu 10. bekkjar. Það yrði að setja á annað fyrirkomulag. Það náðist samkomulag um könnunarpróf sem nú verða sett á og innleidd. Hins vegar skapaðist ákveðið millibilsástand síðastliðið vor og þingið greip inn í, þverpólitísk samstaða var þar um, að afnema könnunarprófin eða samræmdu prófin í vor. Ég velti því fyrir mér í ljósi þess að það var mikið fát á væntanlegum framhaldsskólanemum og fjölskyldum þeirra þegar verið var að sækja um vist í framhaldsskólum, hvað ráðuneytið hefði gert til þess að kynna breytt fyrirkomulag. Ég tel mikilvægt að ráðuneytið fundi með grunnskólaskólastjórum, með foreldrum, samtökum eins og Heimilum og skóla og framhaldsskólunum um það hvernig hefði átt að leysa þetta millibilsástand og síðan hitt hvernig hægt er að sýna fram á það hvernig hin nýja breyting muni snerta heimilin.

Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar, ég sagði það líka á sínum tíma í þinginu, að við þurfum að hafa samræmd próf, samræmd könnunarpróf, sem er allt annað en það sem var uppi á sínum tíma. Við erum með samræmd könnunarpróf í 4. bekk, við erum með samræmd próf í 7. bekk, könnunarprófin, og ég hef þá reynslu sem foreldri að þau hafa nýst minni fjölskyldu mjög vel. Maður sér ákveðna þróun hjá börnunum sínum og ég held að mikilvægt sé að hafa slík mælitæki sem gagnast skólunum, en ekki síður fjölskyldunum og foreldrum til að fylgjast með náminu.

Hins vegar erum við að fara inn í það að könnunarprófin verði núna að hausti til, eða fyrr á skólaárinu, til þess fyrst og fremst að koma til móts við þá gagnrýni sem fram kom um að þau væru orðin svo stýrandi að það færi lítið annað fram en undirbúningur fyrir slík próf. Ég held að ráðuneytið þurfi að standa fyrir víðtækri kynningu á breyttu fyrirkomulagi og ég er sannfærð um það, ekki bara í þessu máli heldur líka í öllum öðrum málum, stórum málum líka, að upplýsingar eru af hinu góða. Það verður að upplýsa foreldra, það verður að upplýsa skólastofnanir um hvernig menn muni leysa innritanir í framhaldsskóla á næsta ári þannig að það verði komið í veg fyrir (Forseti hringir.) ákveðna ringulreið sem varð við innritun í framhaldsskólana í vor.

Því spyr ég: (Forseti hringir.) Hvernig hefur ráðuneytið staðið að því að kynna foreldrum og skólastarfsmönnum á grunn- og framhaldsskólastigi breytt fyrirkomulag í 10. bekk?