138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

kynning á breyttu fyrirkomulagi í 10. bekk.

137. mál
[14:56]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn og svörin frá ráðherra. Ég hef mikinn áhuga á að heyra, bæði frá fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra, hver viðhorf þeirra eru til hugsanlegra inntökuprófa eða samræmdra prófa í framhaldsskólum og háskólum. Í Bandaríkjunum er það þannig að allir, eða stór hluti nemenda, sem fara í gegnum „highschool“ taka SAT-prófin og þegar menn eru búnir með háskólanámið þar, fjögurra ára námið, og ef þeir fara í framhaldsnám þá taka þeir GRE- eða GMAT-prófin, eftir því hvaða leiðir þeir velja sér. Hér var nefnt dæmi um Finnland en þar er mikil samkeppni um ákveðnar námsbrautir eða nám í háskólunum og mjög algengt að nemendur þurfi að þreyta einhvers konar inntökupróf til þess að komast inn í námið, eða vera með ákveðna lágmarkseinkunn úr (Forseti hringir.) framhaldsskólunum. Ég hef því mikinn áhuga á að heyra frá þeim reynsluboltum (Forseti hringir.) í menntamálunum sem hér eru, hverjar þeirra skoðanir eru.