138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

kynning á breyttu fyrirkomulagi í 10. bekk.

137. mál
[14:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Til að ég svari hv. þm. Eygló Harðardóttur örstutt þá minni ég á að stór breyting á framhaldsskólalögunum var breyting yfir í fræðsluskyldu, þ.e. að börnin okkar eiga rétt á því að ganga í framhaldsskóla fram til 18 ára aldurs og því held að ég inntökupróf í framhaldsskóla falli um sjálft sig. Þetta er réttur þeirra og það er skylda ríkisins að taka við börnunum í framhaldsskóla fram til 18 ára.

Síðan er hitt varðandi háskólana, það er grundvallarhugsun í háskólalöggjöfinni að hún er rammalöggjöf og frelsið er hjá háskólunum. Það er þeirra að ákveða þetta. Við sjáum það nú þegar í læknisfræðinni, þar eru komin inntökupróf strax frá upphafi, það var öðruvísi fyrir nokkrum árum. Ég spái því að við eigum eftir að sjá háskólana feta hægt og rólega þá slóð. Það er þeirra að meta það. Ég held að ekki væri gott fyrir ráðuneytið að vera allt of mikið með puttana í því þótt þetta byggist náttúrlega engu að síður á góðu samstarfi milli ráðuneytis og háskóla. En háskólarnir eru opnir. Að mínu mati er það þeirra að ákveða og við eigum að halda áfram í það grundvallaratriði.

Ég vil sérstaklega þakka ráðherra svörin varðandi þetta mál og ég tek heils hugar undir með henni að það þarf að miðla upplýsingum betur. Ég held að við verðum bara einfaldlega að horfast í augu við það að þetta gekk ekki nógu vel í vor. Ég veit að það er dugmikið og kjarkmikið fólk í ráðuneytinu og sama gildir um framhaldsskólana. Það þarf hins vegar að miðla upplýsingum betur inn á heimilin. Ég held að þar hafi mistekist. Ég held að framhaldsskólarnir hafi verið mjög meðvitaðir um þessar breytingar og hugsanlega grunnskólarnir líka, en ég tel að það þurfi að upplýsa heimilin mun betur um þær breytingar sem munu eiga sér stað á næstu vikum og ég hvet ráðherra til dáða á þeim vettvangi.