138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

kynning á breyttu fyrirkomulagi í 10. bekk.

137. mál
[15:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna. Hvað varðar athugasemd hv. þm. Eyglóar Harðardóttur hafa stúdentsprófin hingað til auðvitað verið ætluð sem undirbúningur eða að hluta til gjaldgengur aðgöngumiði, en hins vegar er það rétt sem kom fram hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að skólarnir, háskólarnir, hafi síðan getað sett skilyrði inn á mismunandi námsbrautir og annað slíkt. Það held ég að þurfi fyrst og fremst að skoðast í mjög góðu samráði innan skólasamfélagsins og milli ráðuneytisins og háskóla. Hér hafa aðstæður verið aðrar en víðast hvar erlendis, t.d. þar sem eru mjög takmörkuð sæti líka í opinberum skólum, þar sem eru samt miklar fjöldatakmarkanir ekki síst í framhaldsnám og keppst um hvert sæti. Þetta er auðvitað þróun sem þarf að skoða heildstætt og kallar kannski á lengri umræðu.

Hvað varðar athugasemd hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur er það líka stór umræða sem tengist námskrá og hversu ítarleg á hún að vera. Ég hef reyndar oft talað fyrir því að námskráin eigi ekki að vera of nákvæm en hún eigi hins vegar að mynda almennan ramma til þess að nemendur eigi t.d. góða möguleika á því að skipta um skóla og ganga þar að jafngildu námi, en hins vegar eiga kennarar og fagfólk líka að hafa ákveðið svigrúm innan námskrárinnar. En þetta er hins vegar mikil umræða, sem stendur yfir núna og á vafalaust eftir að vera áberandi í vetur við mótun nýrrar námskrár.

Hvað varðar upplýsingamiðlunina tel ég að við höfum lagt mikla vinnu í hana nú þegar en auðvitað er sjálfsagt að reyna ávallt að gera betur en við höfum lagt mikla vinnu í að kynna þetta nýja fyrirkomulag. En eins og ég segi líka, þetta er stór breyting og fólk er kannski í eðli sínu íhaldssamt og því skiptir miklu máli að kynna þetta vel. Við höfum líka tekið ákveðnar stikkprufur og við höfum ekki orðið vör við einkunnabólgu eða annað slíkt sem miklar sögur voru um í vor þegar rætt var um skólaeinkunnir. Við munum líka læra af reynslunni í vor (Forseti hringir.) sem var fyrsta vorið með þessu nýja fyrirkomulagi og reyna að sníða þá hnökra af sem við sjáum eftir það.