138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

ferðasjóður Íþróttasambands Íslands.

143. mál
[15:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Á vormánuðum ársins 2007 var samþykkt af ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að setja á fót ferðasjóð íþróttafélaga. Það var gert í framhaldi af þingsályktunartillögu sem var ítrekað flutt í þingsal af hálfu þáverandi þingmanns Framsóknarflokksins, Hjálmars Árnasonar, og fleiri alþingismanna. Það var mikil þrautseigja að ná málinu í gegn og á vormánuðum samþykkti ríkisstjórnin það. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kom fram, með leyfi forseta:

„Leiða má líkur að því að ferðakostnaður íþróttafélaganna sé allt að 500 millj. kr. vegna þátttöku í Íslands-, bikar- og meistaramótum. Af bókfærðum ferðakostnaði félaganna er verulegur hluti vegna ferðalaga félaga utan höfuðborgarsvæðisins.“

Nú má gera ráð fyrir því, frú forseti, að þessi hálfi milljarður sem var árið 2005 sé orðinn mun hærri upphæð í dag sökum verðlagshækkana almennt í samfélaginu. Gert var ráð fyrir því að framlagið yrði 90 millj. kr. árið 2009 en er 60 millj. kr. í ár og gert er ráð fyrir að verði á næsta ári framlag til þessa mikilvæga sjóðs sem á að stuðla að jafnræði og jafnrétti einstaklinga, hvort sem þeir búa á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni, til að stunda íþróttir við sitt hæfi. Nú er ljóst að þessi styrkur verður að öllu óbreyttu 57 milljónir á næsta ári. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra okkur til glöggvunar, í fyrsta lagi: Hvernig skiptist úthlutun ferðasjóðs Íþróttasambands Íslands eftir kjördæmum á árinu 2008?

Í öðru lagi: Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að efla ferðasjóð Íþróttasambands Íslands í framtíðinni?

Ég spyr vegna þess að við höfum heyrt víðs vegar að af landinu að hár ferðakostnaður er að aftra möguleikum ungs fólks til að stunda íþróttir til jafns við jafnaldra þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Á tímum sem þessum þurfum við að standa vörð um að ungt fólk hafi jöfn tækifæri til að stunda afreksíþróttir sem var hugsjónin með þessum sjóði. Því væri verulega gott að heyra hvaða framtíðarsýn hæstv. ráðherra hefur í þeim efnum. Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því að þungt er í ári og erfiðleikar eru hjá hinu opinbera en mér þætti það veruleg afturför ef þessi sjóður yrði að engu hafður því að á undanförnum árum hefur náðst gríðarlegur árangur í því að bæta aðstöðu ungmenna, sérstaklega á landsbyggðinni, til að stunda afreksíþróttir og að sjálfsögðu eiga þau að njóta jafnréttis á við aðra sem búa á suðvesturhorni landsins þegar kemur að þeim efnum. Það verður því áhugavert að heyra svar hæstv. ráðherra.