138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

stofnun framhaldsskóla í Rangárþingi.

146. mál
[15:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda Unni Brá Konráðsdóttur sem fór hér yfir aðdraganda þessa máls. Mig langar að fara ítarlegar í þá skýrslu sem hv. þingmaður vísaði til. Það var 31. janúar 2008 sem þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, skipaði nefnd til að athuga hvort grundvöllur væri fyrir stofnun framhaldsskóla í Rangárvallasýslu. Tillögunum var skilað í maí 2009, sem sagt núna í vor, og þar eru þrír valkostir nefndir eins og hv. þingmaður fór yfir í fyrirspurn sinni. Í fyrsta lagi að stofna sjálfstæðan framhaldsskóla. Fram kom að nemendafjöldi á svæðinu gæfi vart tilefni til þess að stofnaður yrði sjálfstæður skóli. Í skýrslu sem gerð var í menntamálaráðuneytinu árið 2006 var ekki talinn grundvöllur fyrir stofnun sjálfstæðs framhaldsskóla í Rangárþingi miðað við nemendafjölda á svæðinu. Það þarf að hafa þær forsendur í huga þegar við metum stöðu skýrslunnar og þetta hefur auðvitað verið til talsverðar umræðu lengi og má minna á þessa fyrri skýrslu líka.

Í öðru lagi taldi nefndin að þó að ekki væru taldar forsendur til að stofna sjálfstæðan skóla í Rangárþingi kynni að vera möguleiki fyrir stofnun útibús frá einhverjum af þeim þremur framhaldsskólum sem eru í fjórðungnum, Fjölbrautaskóla Suðurlands, Menntaskólanum að Laugarvatni eða Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum. Er þá sérstaklega vísað til þess þegar ferja verður komin frá Bakkafjöru út í Eyjar. Þetta er sá kostur sem ég tel að komi helst til greina ef ráðist verður í breytingar í framhaldsskólamálum á Suðurlandi, að eitthvert slíkt útibú yrði stofnað.

Síðan var í þriðja lagi nefnt óbreytt ástand en dvalarstyrkir yrðu hækkaðir verulega. Nemendur í Rangárþingi eiga flestir greiðan aðgang að framhaldsskóla á Selfossi með daglegum skólaakstri sem er þeim að kostnaðarlausu. Nokkur hluti getur hins vegar ekki nýtt sér þessa þjónustu vegna fjarlægðar og verður því að flytja að heiman og búa annaðhvort á heimavist eða í leiguhúsnæði með miklum kostnaði fyrir viðkomandi heimili. Veruleg hækkun dvalarstyrkja mundi því koma til móts við heimilin hvað þetta varðar. Hins vegar eru, eins og nefnt var áðan í þessum sal, vaxandi kröfur frá foreldrum um að börn þeirra eigi kost á því að ganga í framhaldsskóla sem er ekki fjarri heimili þeirra. Þetta tengist auðvitað fræðsluskyldu til 18 ára aldurs, hækkun sjálfræðisaldurs, þetta eru félagslegar ástæður og forvarnaástæður, eins og hv. þingmaður nefndi hér, að börnin dvelja þá lengur heima, fyrir utan það auðvitað að því fylgir mikill kostnaður að senda börn að heiman til þess að búa annaðhvort á heimavist eða leigumarkaði.

Síðan má nefna þau byggðalegu rök að sveitarfélögin telja það styrkja mjög stöðu sína ef þau hafa upp á einhvers konar framhaldsskólanám að bjóða á svæðinu. Hins vegar þurfum við líka að taka það til greina — það var einmitt nefnt þegar við ræddum framhaldsdeild á Patreksfirði fyrir viku — að það er auðvitað umhugsunarefni að minni framhaldsskólar hafa kannski ekki eins mikla möguleika á að bjóða fjölbreytt nám. Yfirleitt er þá bóknám í boði frekar en verknám. Það verður til þess að það hallar enn frekar á verk- og starfsnám þannig að ég tel mikilvægt að við skoðum þær breytur líka þegar við ræðum þessar útibúahugmyndir, við þurfum líka að hafa í huga að það sé ákveðin fjölbreytni í því námi sem er í boði.

Áðurnefnd skýrsla er til skoðunar í ráðuneytinu. Við förum mjög vandlega yfir allar slíkar ákvarðanir miðað við þær efnahagslegu aðstæður sem nú ríkja. Hins vegar vil ég alls ekki útiloka að það verði stofnað til framhaldsskólahalds í sýslunni. Ég hef lýst ánægju minni með þær tilraunir sem hafa farið af stað, á Patreksfirði, í Fjallabyggð og á Þórshöfn þar sem ánægja er með þetta, en ég tel líka mikilvægt að við lærum af þeim verkefnum sem eru í gangi og skoðum sérstaklega hvernig við getum tryggt fjölbreytni í þessu námsframboði, hvort það er hugsað til tveggja ára, upp að 18 ára aldri, og síðan taki eitthvað annað við og hvernig skipulag námsins er hugsað.

Rangæingar eiga aðild að Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi sem er stór skóli með miklu námsframboði. Það skiptir miklu máli að þetta verði hugsað í samhengi líka við aðra skóla á svæðinu þannig að þar verði áfram fjölbreytt námsframboð. Staðan er sem sagt sú að skýrslan er til skoðunar, við viljum meta þetta en við munum líka ganga varlega fram á erfiðum efnahagstímum og skoða þá reynslu sem við fáum út úr þeim vetri sem núna stendur yfir með nýjum framhaldsdeildum á þessum tveimur stöðum og vinna síðan áfram.

Almennt tek ég undir þá hugmyndafræði að við getum boðið upp á framhaldsskólanám í heimabyggð til 18 ára aldurs og vil reyna að stuðla að því sem víðast.