138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

stofnun framhaldsskóla í Rangárþingi.

146. mál
[15:30]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir þessa þörfu fyrirspurn. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að það eigi að veita börnum réttindi til að stunda framhaldsskólanám í sinni heimabyggð. Ég vil, án þess að vera búinn að kynna mér þessa skýrslu, hvetja hv. þingmann til að leggja fram þingmál í þinginu um þetta hugðarefni sitt, því að mitt fyrsta þingmál árið 2003 þegar ég settist inn á þing, var stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð og nú á að fara að ráða skólameistara við þann skóla. Það er mikilvægt að leggja fram slíkar tillögur í þinginu til þess að afla þeim fylgis og kynna þær stjórnmálamönnum úr öllum stjórnmálaflokkum. Ég hvet hv. þingmann til dáða í þessum efnum því að hér er um mikið undirstöðuatriði að ræða fyrir margar fjölskyldur vítt og breitt um landið og þetta er eitthvað sem koma skal. Veitum börnunum réttindi til að stunda nám, framhaldsskólanám í heimabyggð.