138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

stofnun framhaldsskóla í Rangárþingi.

146. mál
[15:32]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þessa góðu umræðu sem í raun og veru á við alls staðar, ekki bara í Rangárþingi, heldur vítt og breitt um byggðir landsins. Ég tel að hér sé í raun og veru um afar þarft og að mörgu leyti faglega sterkt mál að ræða vegna þess að ég held að í hinu breytta skólaumhverfi megi líka nýta tækifæri þar sem meiri áhersla er lögð á nám en kennslu og nemendur taka meiri ábyrgð á eigin námi. Með því að börnin byggju lengur heima hjá sér mætti alveg gera ráð fyrir að brottfall mundi minnka, ég hugsa að ef það væri skoðað sé brottfall þeirra nemenda sem þurfa að flytja að heiman örugglega talsvert.

Síðan langaði mig bara aðeins til að leggja inn í umræðuna að auðvitað er það rétt að verknám og listnám getur verið flóknara í fjarnámi, en lítum bara á það sem spennandi tækifæri, það er hægt að vinna í tengslum við atvinnulífið, við iðnfyrirtækin og menningarstarfsemina sem er í þessum byggðum, þannig að það á bara að vera ögrandi verkefni en alls ekki nein hömlun. Svo langar mig að segja, af því að af því við megum ekki gleyma því að við eigum endilega að ræða þetta líka við krakkana sjálfa, hvað segja þau og (Forseti hringir.) skipuleggja námið í tengslum við börn og ungmenni.