138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

stofnun framhaldsskóla í Rangárþingi.

146. mál
[15:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna og með hlýjum orðum. Það er gott að fá hvatningu og ég tek hvatningu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar þannig að ég mun taka hana til skoðunar og væntanlega leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis.

Það er rétt sem hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir kom inn á að brottfall mundi væntanlega minnka við þetta, en sá undirbúningshópur sem fór af stað heima fyrir, fyrsti undirbúningshópurinn, kannaði það einmitt og fór sérstaklega yfir það hvað krakkarnir heima fyrir vilja vegna þess að menn búa ekki til skóla nema að búa til stemningu, fólk er meðvitað um það, bæði í menntamálaráðuneytinu og eins heimamenn.

Það er rétt hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að það þarf að gera þetta á hagkvæman hátt. Við áttum okkur öll á því að það er harður vetur fram undan og erfitt að taka upp ný verkefni nema þau séu virkilega vel skilgreind. Ég veit til þess að heimamenn eru m.a. að skoða hvaða húsnæði er til nú þegar þannig að hægt sé að fara í þetta verkefni á ódýrari og hagkvæmari hátt til að byrja með, og vonast svo að sjálfsögðu til að hagur vænkist og við getum reist myndarlegt skólahúsnæði síðar.

Vissulega er það rétt að gæði námsins verða að vera í fyrirrúmi, enginn vill búa til nýjan framhaldsskóla eða nýja framhaldsskóladeild með það fyrir augum að bjóða upp á lélegra nám en þegar liggur fyrir.

Þessi umræða hefur verið góð. Ég þakka hæstv. ráðherra enn og aftur fyrir að taka vel í málið. Ég hvet ráðherrann til að halda áfram og vinna að því að þetta mikilvæga verkefni verði að veruleika vegna þess að það er svo mikilvægt að við sjáum fram í framtíðina, að við sjáum fyrir okkur og fólkið í landinu sjái von, sjái það og finni að lögð er áhersla á landsbyggðina og ekki síður eflingu menntunar og það mikla forvarnagildi sem felst í því að feður þessa lands (Forseti hringir.) sem og mæður, sjái börnin sín í öruggu umhverfi til framtíðar.