138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

stofnun framhaldsskóla í Grindavík.

147. mál
[15:46]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að hrósa hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir að vekja máls á þessu máli sem er afskaplega brýnt og varðar að mér finnst mannréttindi fjölskyldna í landinu. Það er hægt að taka ótalmörg dæmi um mikilvægi þessa málaflokks. Ég nefni sem dæmi Framhaldsskólann á Húsavík, FSH. Þar eru 160 börn og ungmenni í námi en jafnframt 20 kennarar.

Virðulegi forseti. Þetta er líka brýnt atvinnumál fyrir byggðarlög víða um land, fyrir sunnan jafnt sem norðan. Þá er ekki síður að geta hins, svo sem reynslunnar af Menntasetrinu á Þórshöfn sem er ný stofnun. Þar hef ég heyrt frá forsvarsmönnum að menntunarstig og skólasókn á svæðinu er þegar farið að aukast þannig að með þessum hætti erum við beinlínis að auka menntunarstig þjóðarinnar og það er vel.