138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

stofnun framhaldsskóla í Grindavík.

147. mál
[15:47]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því enn á ný að við ræðum um framhaldsskóla og stofnun þeirra á landsbyggðinni og í Grindavík. Ég tel að það sé mjög jákvætt sem hefur komið fram frá hæstv. menntamálaráðherra varðandi þá undirbúningsvinnu sem er og hefur verið í gangi og tek undir það að ég skil Grindvíkinga vel. Ég tel að þeir líti að vissu leyti á þetta sem hluta af sjálfstæðisbaráttu sinni á Suðurnesjunum og að halda utan um sveitarfélag sitt, þá sé boðið upp á framhaldsskólanám í sveitarfélaginu. Eins og ég minntist á í umræðunni um stofnun framhaldsskóla í Rangárþingi þá taldi ég mjög áhugavert að skoðaðar yrðu áfram tvær hugmyndir af þeim fjórum sem voru nefndar, annars vegar hugsanleg fjarnámsdeild eða hins vegar sjálfstæðan skóla á vegum sveitarfélagsins því ef það er eitthvert sveitarfélag sem ætti að geta staðið myndarlega að þessu þá er það Grindavíkurbær.