138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

stofnun framhaldsskóla í Grindavík.

147. mál
[15:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna um þetta mikilvæga mál og þakka fyrir þær góðu undirtektir sem fyrirspurnin og þessar vangaveltur fá. Jafnframt þakka ég hæstv. ráðherra fyrir viðbrögð hennar við þessari vinnu heimamanna og það er vel, og gott að hlustað sé á menn og skýrslur unnar. Mjög mikilvægt er að umrædd skýrsla sé í skoðun í menntamálaráðuneytinu. Ég hlakka til að heyra hver niðurstaðan verður af þeirri vinnu en ég tel mjög brýnt að hún liggi fyrir sem fyrst og þetta sé að fara í öruggan farveg.

Ég tel að aðallega séu tveir kostir helst í skoðun, annars vegar sá að Grindavíkurbær stofni framhaldsskóla og geri þjónustusamning við ríkið og í öðru lagi að útibú verði frá öðrum framhaldsskóla, þá væntanlega frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Þessir tveir kostir eru vænlegir og ég veit að hæstv. ráðherra mun fylgja þessu máli vel eftir. Það er mjög mikilvægt að foreldrar finni að verið sé að huga að þessum málum, verið sé að huga að því að börn geti búið lengur í foreldrahúsum og geti sótt nám í nærsamfélagi sínu, því eins og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson kom inn á eru það vissulega ákveðin mannréttindi sem felast í því að eiga stutt að sækja nám. En allt þarf þetta að vera á þeim forsendum að gæði námsins séu í forgrunni og eins að á þessum tímum þurfi að horfa á hagkvæmnina og hvernig má koma málum þannig fyrir að þau séu í rekstrarhæfu fyrirkomulagi.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum enn og aftur þakka fyrir þessa góðu umræðu og hlakka til að sjá hver niðurstaðan verður.