138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

kennsluflug.

107. mál
[15:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir hans skýru svör. Þau eru að mínu viti því miður í þá veru að kennsluflug verður ekki flutt frá þessari mikilvægu ef ekki mikilvægustu samgöngumiðstöð Íslendinga sem Reykjavíkurflugvöllur er.

Að mínu viti er það svo að við eigum að taka öryggi flugfarþega og íbúa í grennd við þennan mikilvæga flugvöll fram yfir réttindi flugnema og flugkennara. Það er augljóst hverjir eiga að sitja í hásæti í þeim efnum þegar kemur að öryggisþáttum.

Ég vil jafnframt deila þeirri sýn minni með þeim sem til heyra að Reykjavíkurflugvöllur er ekki á leiðinni úr Vatnsmýri að mínu viti. Hann verður í Vatnsmýri um ókomin ár og er svo sem auðvelt að segja að hann verði þar á meðan Reykjavík verður höfuðborg Íslendinga. En til skamms tíma hafa Íslendingar fráleitt efni á því að reisa nýjan innanlandsflugvöll. Ef svo færi að hann yrði fluttur á Hólmsheiði þá kostar það um 25–30 milljarða kr. og ef hann yrði fluttur til Keflavíkur yrði það rothögg fyrir innanlandsflug hér á landi. Að mínu viti verður innanlandsflugvöllur Íslendinga í Vatnsmýrinni í Reykjavík um ókomin ár, næstu áratugi ef að líkum lætur, en kennsluflugið á ekki heima á þeim sama velli. Það eru nægir aðrir vellir allt í kring til að geta tekið við því. Því heiti ég á ráðherra að beita sér í þeim efnum, að kennsluflugið verði flutt.