138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

sameining rannsóknarnefnda samgönguslysa.

141. mál
[18:03]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hugmynd að sameiningu þriggja rannsóknarnefnda umferðarslysa í eina nefnd er ekki ný af nálinni. Það hefur verið unnið dálítið lengi með þá hugmynd. Í dag höfum við rannsóknarnefnd sjóslysa með lögum nr. 68/2000, með síðari breytingum, síðan eigum við lög um rannsókn flugslysa, nr. 35/2004, líka með síðari breytingum, og svo eigum við lög um rannsóknarnefnd umferðarslysa, nr. 24/2005. Þarna hefur þessu verið púslað saman, ef svo má að orði komast, árin 2000, 2004 og 2005.

Hver er skynsemin í því að hafa þetta í þremur nefndum? Það getur vel verið að ýmsum finnist það skynsamlegt, eins og hér hefur komið fram, en það má líka velta því fyrir sér hvort ekki sé skynsamlegt að sameina þetta í eina nefnd. Það er kannski liður í því sem við vinnum svo víða að í íslensku þjóðfélagi, að hverfa frá því hvernig hlutirnir voru og leita hagræðingar og sparnaðar. Þá kemur þessi sameining til álita eins og allt annað þannig að það er ekkert nýtt að verið sé að vinna að þessu. Í ráðuneytinu hefur þetta tvisvar verið sett á netið, á heimasíðu ráðuneytisins, til að gefa aðilum kost á að gera athugasemdir og koma með ábendingar. Komið hafa fjölmargar ábendingar og hefur verið tekið tillit til margra þeirra, sérstaklega þeirra faglegu ábendinga sem komið hafa. Rætt hefur verið við forstöðumennina og þannig má lengi telja. Í þeim þremur nefndum sem ég talaði um sitja núna 13 nefndarmenn en með því að setja þetta í eina rannsóknarnefnd yrðu nefndarmenn fimm en rannsóknarstjórar yrðu auðvitað fyrir hverja samgöngugrein. Það má því segja að helsta markmiðið með sameiningunni sé að auka öryggi í samgöngum með því að efla og bæta slysarannsóknir á Íslandi. Þá fengju starfsmenn annars fámennrar nefndar í einstökum slysaflokkum faglegan stuðning hver frá öðrum, bæði almennt við störf sín og einnig við stærri rannsóknir.

Annað markmið með sameiningu nefndanna er hagræðing í rekstri þeirra enda krefst núverandi efnahagsástand þess að allra leiða sé leitað til hagræðingar hjá ríkinu, eins og ég sagði í upphafi máls míns. Með sameiningunni er gert auðveldara að ná þessum markmiðum með hagræðingu í sameiginlegum rekstri og stoðþjónustu án þess að skerða fagleg störf nefndarinnar.

Við skulum hafa það í huga að þessar þrjár nefndir kosta á þessu ári um 125 millj. kr. í rekstri. Það eru tveir starfsmenn hjá rannsóknarnefnd umferðarslysa, tveir hjá rannsóknarnefnd sjóslysa og tveir hjá rannsóknarnefnd flugslysa, en eins og við vitum eru rannsóknarnefndir umferðarslysa og flugslysa saman í Reykjavík og hafa þær einn starfsmann þar að auki sem vinnur með báðum nefndunum. Það er kostnaðurinn sem er við þetta starf í dag og í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er gert ráð fyrir 13 millj. kr. sparnaði, lækkun að raungildi, á þessum þremur nefndum. Það sem liggur að baki er að reyna að ná aukinni hagræðingu og sparnaði án þess að skerða fagleg störf nefndarinnar.

Hv. þingmaður spyr í öðru lagi hvort til greina komi að höfuðstöðvar hinnar nýju stofnunar verði utan höfuðborgarsvæðisins. Því er til að svara að eins og við vitum öll verða flest samgönguslys á suðvesturhluta landsins. Því er eðlilegt að höfuðstöðvar rannsóknarnefndar samgönguslysa verði staðsettar hér. Hér eru flest slysin.

Til að tryggja að sú þekking sem er til staðar í núverandi rannsóknarnefndum glatist ekki sem og að sem minnst rót verði á þeirri rannsóknarstarfsemi sem færist undir hina nýju rannsóknarnefnd er í bráðabirgðaákvæði væntanlegs frumvarps kveðið á um að forstöðumönnum núverandi rannsóknarnefnda verði boðið starf rannsóknarstjóra hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa. Jafnframt skal öðrum starfsmönnum nefndanna boðið starf hjá hinni nýju nefnd.