138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

sameining rannsóknarnefnda samgönguslysa.

141. mál
[18:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem á sér stað en ég verð að segja að mér finnst það mjög sérkennilegt að menn gefi sér þá niðurstöðu fyrir fram að það sé eitthvað skynsamlegra að hafa rannsóknarnefndina starfandi á höfuðborgarsvæðinu en úti á landsbyggðinni þó að flest slys verði á höfuðborgarsvæðinu. Það á við um bílslys en auðvitað verða flest sjóslys úti á landsbyggðinni. En er þá ekki eðlilegt að hafa Seðlabankann úti á landsbyggðinni, ef menn setja málið í þetta samhengi? Það er landsbyggðin sem skapar mest af gjaldeyristekjunum. Menn geta farið í svona rökræður endalaust. Ég verð að segja að mér finnast það ekki góð tíðindi að menn fari í þær aðgerðir sem hér er stefnt að ef þeir eru búnir að ákveða það fyrir fram að höfuðstöðvar rannsóknarnefndarinnar verði á suðvesturhorninu eða á höfuðborgarsvæðinu. Ég hefði talið mjög eðlilegt að menn hefðu nýtt sér þá þekkingu og reynslu sem er á þessum stöðum úti á landi einmitt til að hlúa frekar að þeim en að rífa þetta upp. Ég velti fyrir mér hvort nefndin þurfi þá ekki að flytja í dýrt húsnæði til að geta haft alla starfsemina á sama stað.