138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

Hornafjarðarflugvöllur.

144. mál
[18:18]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir þessa fyrirspurn sem sett fram í einni spurningu um Hornafjarðarflugvöll. Því er til að svara að í dag eru ekki markaðslegar forsendur fyrir því að Hornafjarðarflugvöllur fái stöðu millilandaflugvallar. Það er einfaldlega eins og hér er sagt, að markaðslegar forsendur eru ekki fyrir því, það eru ekki rekstrarskilyrði fyrir því og síðast en ekki síst, virðulegi forseti, eins og hv. þingmaður gat ágætlega um að hún gerði sér grein fyrir að það væri efnahagslægð í landinu, það eru einfaldlega engir peningar til til að fara í svona verkefni.

En til skýringar er rétt í upphafi að gera grein fyrir því að flugvöllum á Íslandi er skipt í þrjá flokka. Í I. flokki eru stærstu áætlunarflugvellir, þar á meðal alþjóðaflugvellir. Í II. flokki eru vellir sem lúta að mestu sömu reglum og vellir í I. flokki að undanskildu því að ekki eru gerðar kröfur um öryggisstjórnunarkerfi. Í III. flokki eru skráðir lendingarstaðir en til þeirra eru gerðar minni kröfur.

Hornafjarðarflugvöllur er í dag í III. flokki. Hann er skráður sem lendingarstaður. Í samræmi við flugvallarreglugerð þarf að færa flugvöll upp í flokk I eigi hann að vera millilandaflugvöllur, alþjóðaflugvöllur. Við það þarf að uppfylla ríkari kröfur um öryggissvæði, rekstur verður umfangsmeiri meðal annars vegna aukins fjölda starfsmanna og þjálfunar þeirra og vegna gæða- og öryggismála auk þess sem skírteinisgjald verður töluvert hærra. Kröfur til flugverndar eru mun meiri á flugvöllum sem teljast alþjóðlegir flugvellir. Flugvallaryfirvöld þurfa að tryggja skimun farþega og farangurs þeirra, bæði handfarangurs og farangurs í lest. Þá þarf að tryggja aðskilnað skimaðra og óskimaðra farþega, þ.e. farþega í millilandaflugi annars vegar og farþega í innanlandsflugi hins vegar. Einnig þarf að tryggja að starfsmenn með tiltekna vottun komist um öryggissvæði en aðrir ekki. Að lokum þarf að tryggja landamæravörslu og tolleftirlit. Vegna þessara atriða þarf að leggja í fjárfestingar í mannvirkjum auk þess sem auka þarf við starfslið bæði á umræddum flugvelli og miðlægt hjá flugvalla- og leiðsögusviði Flugstoða ohf.

Á landinu eru í dag fjórir millilandaflugvellir sem fram að þessu hafa þjónað þessum þörfum. Þess hefur verið gætt að þeir myndi eina heild, uppfylli alþjóðlegar kröfur um millilandaflug, geti þjónað sem varaflugvellir fyrir slíkt flug og geti þjónað flutningaflugi með þotum. Engu að síður er mikilvægt að hægt sé að fljúga einstök millilandaflug til og frá öðrum stöðum eins og á Hornafirði en einnig Ísafirði og Vestmannaeyjum. Rétt er því að athuga hvort það verði ekki best gert með því að færa þessa flugvelli upp í flokk II og að sérstakar flugverndarráðstafanir verði viðhafðar í tengslum við hvert flug og að miðað verði áfram við þær vélar sem þegar geta athafnað sig á þessum völlum.

Flugstoðir ohf. hafa lagt mat á stofnkostnað vegna flugverndar við Hornafjörð og metið hann á rúmar 128 millj. kr. miðað við fullar flugverndarráðstafanir. Miðað við takmarkaðar flugverndarráðstafanir yrði hann í kringum 95 millj. en ekki 32 millj. í lægsta flokki eins og mér fannst hv. þingmaður tala um. Árlegur rekstrarkostnaður yrði, miðað við fullar flugverndarráðstafanir á Hornafjarðarflugvelli, rúmar 16 millj. kr. en miðað við takmarkaðar flugverndarráðstafanir yrði hann rúmar 11,9 millj. kr.