138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

Hornafjarðarflugvöllur.

144. mál
[18:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Þar sem tölulegi mismunurinn í málflutningi okkar liggur er á bls. 4 í skýrslunni þar sem fjallað er um Hornafjarðarflugvöll sérstaklega og þar kemur fram að hægt sé að stytta flugbrautina í 1.199 metra og þá þurfi ekki að breikka öryggissvæðið né byggja nýtt RESA eða „runway end safety area“, með leyfi forseta. Kostnaður við þessa tilhögun gæti numið um 25 millj. kr. og það er sú tala sem ég nota ef reynt er að fara kreppuleiðina, þ.e. taka ódýrasta kostinn. En ég skil ráðherrann þá þannig að það sé ekkert verið að gera varðandi þessar tillögur eða útlistun og óskir heimamanna sem komið hafa fram, og ekki einu sinni verið að undirbúa jarðveginn þannig að þegar betur stendur á hjá okkur í ríkisrekstrinum væri hægt að fara í þessar framkvæmdir.

Jafnframt langar mig að fá aðeins betur fram hjá hæstv. ráðherra, af því að hann talaði um að þetta væri ekki hagkvæmt út frá markaðslegum sjónarmiðum, hvort einhver sérstök athugun hafi farið fram á því eða hvort einhverjar greiningar hafi verið gerðar á því hvaða tækifæri gætu skapast við þessa aðgerð og hvort heimamenn og þeir sem vinna við eflingu þjóðgarðsins hafi verið kallaðir að slíkri vinnu. Vegna þess að ég tel að þrátt fyrir allt og þótt við séum í efnahagslægð eigum við ekki að hætta að hugsa til framtíðar, við hljótum að ætla að vera með einhverja framtíðarsýn, og því sé mikilvægt að nota tímann núna til að fara í greiningarvinnu og skoða hvort viðbót sem þessi gæti á endanum skilað okkur fleiri tækifærum til atvinnusköpunar og jafnvel skilað okkur á endanum auknum gjaldeyristekjum.