138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

Hornafjarðarflugvöllur.

144. mál
[18:24]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina, hennar innlegg og það sem hún setur hér fram. Það er greinilegt að hún hefur kynnt sér málið vel og það er gott.

Hvort sem hinn tölulegi mismunur sem við erum að tala um liggur í þeim tillögum sem þarna eru um að stytta völlinn niður í 1.199 metra, væntanlega til að færa hann niður um flokk, þá verðum við að hafa það í huga líka, virðulegi forseti, að það takmarkar það hve margar vélar munu lenda og þar með koma minni tekjur inn og þar með versnar rekstrargrundvöllurinn í raun og veru. Eins og ég sagði áðan, við erum með Flugstoðir sem opinbert hlutafélag og greiðum töluvert til þess en við þurfum auðvitað að gæta þess líka að markaðslegar forsendur séu fyrir hlutunum og þó að byggðastyrkir og annað sé gott og góðra gjalda vert þurfum við að ganga svolítið hægt um núna vegna þess að við erum frekar blönk eftir hrunið eins og kom fram hjá hv. þingmanni. Það er aðallega þess vegna sem ég svara þessu svo afdráttarlaust núna.

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að auðvitað hugsum við til framtíðar og vonandi kemur sú tíð að við getum hugsað það langt til framtíðar að við sjáum hvað varðar Vatnajökulsþjóðgarð og annað, möguleika í því að á Hornafirði verði alþjóðlegur flugvöllur, margar lendingar og margir farþegar, miklar tekjur og mikill gjaldeyrir. Þetta er fögur sýn og ég deili þeirri sýn með hv. þingmanni og er alveg sannfærður um að með verkum hinnar góðu ríkisstjórnar sem situr nú kemur þessi tími fyrr en seinna.