138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

snjóflóðavarnir í Tröllagili.

142. mál
[18:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Herra forseti. Á fundi okkar þingmanna í Norðausturkjördæmi með bæjarstjórn Fjarðabyggðar vöktu forráðamenn sveitarfélagsins athygli á því að í bréfi frá samgönguráðuneytinu hafi komið fram vegna þeirra snjóflóðavarna sem fyrirhugað var að fara í eftir að framkvæmdum við Drangagil lauk árið 2002, en þá átti að hefja varnir við Tröllagil enda snjóflóðahætta á landinu ekki metin meiri annars staðar. En í erindi frá forráðamönnum sveitarfélagsins til hæstv. umhverfisráðherra segir m.a. þess vegna, með leyfi forseta:

„Þær framkvæmdir frestuðust meðal annars vegna þenslu á svæðinu. Sú röksemd á ekki við lengur. Ofanflóðasjóður býr samkvæmt nýjasta ársreikningi yfir tæplega 6 milljörðum kr. í eigin fé og hefur það hækkað um rúmlega milljarð kr. á milli ára. Fjármunir ofanflóðasjóðs eru sérstaklega innheimtir til að vinna að vörnum gegn slysum af völdum snjóflóða en ekki sem almennur tekjustofn fyrir ríkissjóð. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2010 er gert ráð fyrir 592 millj. kr. í framkvæmdir á vegum sjóðsins en fjármagnstekjurnar einar og sér voru 676 millj. kr. árið 2008. Í fjárlagafrumvarpinu er þar að auki gert ráð fyrir 1.400 millj. kr. í tekjur af ofanflóðagjaldi.“

Frú forseti. Það er eðlilegt að fólk spyrji því að ... Herra forseti. Það er ákveðin útskýring á þessu en nýlega hefur bæst við karlmaður í forsætisnefnd sem er ánægjulegt.

En, herra forseti, það er eðlilegt að yfirvöld í Fjarðabyggð spyrji sig þeirrar spurningar hvers vegna ráðherrann hafi ákveðið eða gefið það út með bréfi að fresta þessum framkvæmdum til ársins 2013. Við hljótum því að spyrja hvort ráðherrann hyggist endurskoða þá ákvörðun vegna þess að af hálfu yfirvalda í gegnum tíðina hefur þessum framkvæmdum margsinnis verið lofað. Bent hefur verið á að hvergi á landinu sé eins brýn þörf fyrir að hefja framkvæmdir til að verja byggð eins og á þessum stað og eins og bæjaryfirvöld hafa rökstutt er það gjald sem rennur í ofanflóðasjóð ekki hugsað sem einhver tekjustofn fyrir ríkið heldur til að fara í framkvæmdir til að verja heilu byggðarlögin. Ég vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra hafi skipt um skoðun í þessum efnum og sé reiðubúin til að gefa það út að hún muni beita sér fyrir því að framkvæmdir verði hafnar við þessar snjóflóðavarnir enda hafa verið miklar væntingar í sveitarfélaginu á undangengnum árum til þess að svo geti orðið, herra forseti.