138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

eyðing refs.

151. mál
[18:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Herra forseti. Ég spyr hér hæstv. umhverfisráðherra hvort hún hyggist beita sér fyrir því að ríkið veiti aukið fé til eyðingar refs í samstarfi við sveitarfélögin í landinu. Forsaga málsins er sú að samkvæmt fjárlagafrumvarpi eru hugmyndir umhverfisráðherra þær að hætta greiðsluþátttöku ríkisins í refaveiðum en hér hefur í gegnum tíðina verið um samstarfsverkefni að ræða á milli ríkis og sveitarfélaga. Á fundi okkar þingmanna í Norðausturkjördæmi með forsvarsmönnum Skútustaðahrepps kom fram hversu viðkvæmt dýralífið, fuglalífið, við Mývatn er. Á þessu ári hefur það sveitarfélag varið meira fjármagni til eyðingar refs en til rekstrar á leikskóla sveitarfélagsins. Ef mönnum er einhver alvara í því að viðhalda íslenskri náttúru verður eitthvert eðlilegt jafnvægi að vera í þeim efnum. Eðlilegt jafnvægi mun aldrei helgast af því að friða eitt rándýr með því að ríkið hætti kostnaðarhlutdeild sinni við að fækka þessum dýrum sem lagst hafa mjög þungt á viðkvæmt fuglalíf vítt og breitt um landið. Við þekkjum mörg hver sögur um þar sem þessi skepna hefur hreinsað upp alla mófugla og allt fuglalíf í mörgum fjörðum landsins.

Það er því eðlilegt að við spyrjum hæstv. umhverfisráðherra að því hvort hún hyggist ekki beita sér fyrir því í samstarfi við íslensk sveitarfélög að þessu rándýri í íslenskri náttúru verði áfram haldið í skefjum. Við höfum fengið fjölmargar áskoranir í þeim efnum, m.a. áskorun frá Æðarræktarfélagi Íslands sem kom í dag. Þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Undirritaður hefur fylgst með friðun refs í friðlandinu á norðanverðu norðvesturhorni Vestfjarða. Þar hefur öllum mófugli stórfækkað og sá fugl sem eftir er hefur hætt að láta heyra í sér að miklu leyti. Fram til þessa tíma hefur þjóðfélagið talið þörf á að halda ref í skefjum, en ákvæði þar að lútandi hafa verið í gildi allt frá 13. öld.“

Og áfram stendur, með leyfi forseta:

„Æðarræktarfélag Íslands óskar hér með eftir því að þú beitir þér gegn hugmyndum umhverfisráðherra að hætta greiðsluþátttöku ríkisins í refaveiðum. Því er haldið fram að sparnaður sem af þessu hlýst sé 17 milljónir. Það er fjarri lagi. Að frádregnum virðisaukaskatti, tekjuskatti og útsvari veiðimanna er raunverulegur sparnaður u.þ.b. fimm milljónir en ekki 17 milljónir eins og nefnt hefur verið.“

Við höfum fengið fleiri áskoranir, m.a. frá Dalamönnum, sem búa náttúrlega við ágang af hálfu friðlandsins þar sem refir koma af Vestfjörðum niður í Dalina. (Forseti hringir.) Það er því eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort henni sé virkilega alvara með að hætta hlutdeild ríkisins (Forseti hringir.) í eyðingu refs.