138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

eyðing refs.

151. mál
[18:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá umræðu sem á hér á sér stað. Fyrst verð ég að lýsa vonbrigðum mínum með að ríkisvaldið ræði ekkert við sveitarfélögin þótt það sé í samstarfsverkefni með þeim heldur slær það bara samstarfið af. Það þarf ekkert að ræða við sveitarfélögin, ráðuneytið tekur einhliða ákvörðun án þess að ræða nokkurn hlut og án þess að gera sér grein fyrir hvað það þýðir.

Ég hef miklar áhyggjur af því að ef þetta gengur eftir og menn fara að hætta að veiða ref með þeim aðferðum sem þeir gera í dag, muni fuglalíf stórskaðast af því. Annað sem er líka mjög hættulegt er að ef menn skjóta ref á grenjatímanum, sem er bannað í dag, það eru eingöngu sérstakir menn sem mega skjóta refi, muni refirnir verða skotnir og yrðlingarnir deyja úr hungri í greninu. Það er mjög alvarlegt. Það er mjög sérkennilegt að sú hugsjón skuli koma frá umhverfisráðuneytinu.

Svo vil ég að lokum benda hæstv. umhverfisráðherra á að tala nú ekki við þessa kommissara í ráðuneytinu um þessi mál. Ég bendi henni á (Forseti hringir.) að tala við einn mann sem þekkir mjög vel til og heitir Snorri Jóhannesson úr Borgarfirði.