138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

eyðing refs.

151. mál
[18:45]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að vekja máls á þessu máli. Ég er sammála honum í því að afar óheppilegt væri ef refaveiðar legðust algerlega af, ekki aðeins út frá atvinnulegum sjónarmiðum heldur líka út frá menningarlegum, félagslegum og ekki síst umhverfissjónarmiðum. Það er hætta á að viss þekking sem til er meðal veiðimanna gæti tapast og við verðum að horfa á alla þessa þætti með slíkt í huga. Brýnt er að þeim málum verði komið í ákveðinn farveg þannig að ekki sé hætta á að veiðarnar leggist af, sátt náist í málinu milli ríkisins, sveitarfélaga, veiðimanna og fagfólks í umhverfis- og náttúrufræðum.