138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

eyðing refs.

151. mál
[18:46]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að vekja máls á þessu máli og taka það upp undir þessum lið. Ég er efnislega sammála hv. þingmanni að mjög miklu leyti og ég held að við þurfum að setjast yfir málið.

Það er alveg laukrétt að ákveðin vandamál hafa verið þessu tengd. Í gegnum tíðina hefur samstarf sveitarfélaga og ríkisins verið mjög gott á þessu sviði en núna í seinni tíð hefur borið við að á ákveðnum svæðum þar sem töluvert lítið er veitt er verið að færa skott á milli svæða og annað, skipulagið er ekki nægilega gott á þessu. Því fagna ég að hæstv. umhverfisráðherra ætli að skipa starfshóp til að fara yfir þessi mál. Ég ítreka og hef nefnt það að málið verði tekið upp í fjárlaganefnd til að leita leiða til að rétta þennan hlut núna í ár en í framhaldinu verði starfshópur (Forseti hringir.) skipaður sem skili niðurstöðum jafnvel fyrir næstu fjárlagagerð.