138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

eyðing refs.

151. mál
[18:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held að það mál sem við ræðum kunni að virðast hjá einhverjum lítið mál en þetta er stórmál. Við erum að ræða um að mínu viti lítinn sparnað hjá ríkinu, ef sparnaðurinn er í raun nokkur þegar upp er staðið, en hugsanlega mikið tjón. Því það sjá allir og vita sem hafa fylgst með og eiga t.d. leið um náttúruna þar sem mikið er af ref, að þar heyrist ekki í mófugli, svo dæmi sé tekið. Það má heldur ekki gleyma því að tekjur ríkisins af þessum veiðum eru þó nokkrar. Dæmi eru um að tekjur ríkisins séu þannig að borgað er minna til sveitarfélaga en það fær í virðisauka. Svo má ekki sleppa að nefna að mörg sveitarfélög hafa mjög gott skipulag á þessum veiðum. Það er ekki svo að þetta sé alls staðar í kaldakoli. En það er ágætt að samræma þetta og ríkið á náttúrlega að sjálfsögðu að taka þetta alfarið yfir og sjá um þessa eyðingu.