138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[10:34]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Fram undan er umræða um eitt mikilvægasta mál sem komið hefur hér inn í þingsal, um Icesave-ábyrgðina. Ég tel rétt að við ræðum það mál ítarlega og það sé vel ígrundað áður en Alþingi kemst að niðurstöðu.

Undanfarna daga hafa verið kvöldfundir og í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við það en nú liggur fyrir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lýst því yfir að afgreiðsla Alþingis á Icesave-málinu hafi ekkert að gera með það prógramm sem Ísland er í með sjóðnum. Því tel ég rétt, frú forseti, að við gefum okkur eðlilegan tíma og eðlilegan fundartíma til að ræða þetta mikilvæga mál. Ég tel ekki rétt að við fundum á kvöldin og nóttunni þegar jafnmikið er undir og núna.

Jafnframt vil ég lýsa því yfir fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins að ef ríkisstjórnin telur nauðsynlegt að einhver mál komi fram á þinginu sem snúa að atvinnumálum og hag og fjárhag fjölskyldnanna í landinu munum við að sjálfsögðu vera tilbúin til þess að hnika til þannig að slík mál geti fengið fullan framgang eins hratt og mögulegt er. Það er nauðsynlegt að við náum góðri samstöðu hér og það verði sómi og vegur að því hvernig við fjöllum þetta mikilvæga mál, Icesave-málið.