138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

skattatillögur ríkisstjórnarinnar.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Nú höfum við loksins, loksins fengið að sjá hugmyndir ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Þær valda okkur auðvitað miklum áhyggjum og vonbrigðum en þær eru kynntar til sögunnar sem leið til þess að færa okkur nær skattakerfi Norðurlandanna.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það sé mjög í takt við skattaframkvæmd á Norðurlöndunum að draga úr möguleikum fyrir samsköttun hjóna og einnig hvort hún telji það mjög í anda norrænnar skattaframkvæmdar að afnema vísitölutengingu persónuafsláttar.