138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

skattahækkanir og skuldir heimilanna.

[10:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra hefði getað, hefði hún haft á því áhuga, kynnt sér efnahagstillögur sem hafa legið fyrir hjá Framsóknarflokknum frá því í febrúar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur líka kynnt sínar tillögur og það oftar en einu sinni og Hreyfingin hefur einnig haft ýmislegt fram að færa í tillögum um hvernig megi ráðast gegn vandanum. Þessi ríkisstjórn hefur hins vegar engan áhuga á því að hlusta á tillögur annarra enda einbeitir hún sér yfirleitt að því að reyna að kveða þær í kútinn frekar en velta fyrir sér kostum þeirra. Forsætisráðherra segist ekki heyra annað en að það sé ánægja meðal Samtaka atvinnulífsins, ferðaþjónustunnar og hinna og þessara með aðgerðirnar. Ég held að forsætisráðherra hlusti einfaldlega ekki á þá aðila frekar en aðra stjórnmálaflokka.

Spurningin er: Hvernig átti að útvega þessa 70 milljarða á tveimur árum? Hvernig hefði verið að standa í lappirnar og verja rétt Íslendinga í stað þess að taka á sig gífurlegar skuldbindingar og vexti sem eru hærri en nemur þessari upphæð algerlega að óþörfu? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)