138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

lán frá Norðurlöndum.

[10:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það er varla að maður treysti sér hingað upp vegna hættu á því að fá á sig útúrsnúninga og skæting. Ég ætla engu að síður að halda því fram að enn og aftur hefur ríkisstjórnin farið með fleipur og rangt mál og það ekki í litlu máli heldur Icesave-málinu.

Við höfum löngum fengið að heyra að dráttur á lánum sé vegna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í síðustu viku kom hins vegar skýrt fram hjá Dominique Strauss-Kahn að það væri ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem hefði staðið í vegi fyrir afgreiðslu lánanna heldur Norðurlandaþjóðirnar, vinaþjóðir okkar til margra tuga ára. Þess vegna hlýt ég að spyrja forsætisráðherra hvort það sé ekki alveg öruggt að hún hafi einu sinni haft frumkvæði að alþjóðlegum samskiptum og sent formlegt bréf eða fyrirspurn til Norðurlandanna um hverju þetta sæti.

Við erum nýbúin að upplifa það að Norðurlandaráðsþing var haldið í Stokkhólmi. Það var ágætis þing og þar var undirstrikað mikilvægi norræns samstarfs og samstöðu norrænu þjóðanna. Þess vegna er eðlilegt í ljósi þeirra umræðna sem áttu sér stað á því þingi að forsætisráðherra Íslands, vegna þeirra upplýsinga sem Dominique Strauss-Kahn setti fram í síðustu viku, sendi formlega fyrirspurn til Norðurlandaþjóðanna og spyrji hverju þetta sæti. Af hverju stóðuð þið í vegi fyrir því að lánin til okkar Íslendinga voru afgreidd? Ég vil líka upplýsa forsætisráðherra um að ég mun standa í salnum til að hún svari örugglega.