138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[11:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum fundarstjórn forseta vegna uppákomu sem varð hérna áðan þegar ég á leið í sæti mitt hvarf eitt augnablik á bak við þetta þil þar sem ljósmyndari stóð í dyragættinni og ég komst ekki í sætið. Það varð til þess að hæstv. forsætisráðherra neitaði að svara fyrirspurn minni. Nú var ekki um að ræða andsvar við hefðbundinni þingræðu heldur fyrirspurn til ráðherra. Ég geri því sérstaka athugasemd við þetta. Raunar finnst mér áhyggjuefni ef hæstv. forsætisráðherra er ekki tilbúin að útskýra hluti fyrir nema einum manni í einu og viðkomandi verði þá að vera í augsýn og í sama herbergi ella telji forsætisráðherra ekki þess virði að reyna að útskýra málið.

Þetta getur reyndar útskýrt ýmislegt sem við höfum horft upp á að undanförnu, þ.e. að forsætisráðherra hefur ekki treyst sér til eða séð ástæðu til að reyna að útskýra hluti fyrir umheiminum, hvað þá forsætisráðherrum annarra ríkja, væntanlega vegna þess að þeir hafa ekki verið í sama herbergi. Treystir hæstv. forseti sér til þess að setja ofan í við hæstv. forsætisráðherra vegna þessa máls?