138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

framtíðaruppbygging á Vestfjarðavegi í kjölfar dóms Hæstaréttar.

[11:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár til þess að ræða það mikla hörmungarástand sem ríkir í vegamálum á Vestfjarðavegi og þá miklu óvissu sem nýgenginn hæstaréttardómur hefur skapað um vegaframkvæmdir á þeim slóðum. Ég ætla aðeins að rifja upp forsöguna.

Á sínum tíma var nægilegu fjármagni veitt til þessa verks í gildandi samgönguáætlun en síðan þá hefur allt gengið á afturfótunum. Það er eins og allir flækjufætur landsins fari alltaf af stað þegar kemur að því að vinna að vegagerð á þessum slóðum. Menn virðast knúnir áfram af sérhagsmunum og meinbægni þegar þessi bráðnauðsynlega vegagerð er sett á dagskrá og atriði eins og öryggi vegfarenda eða sá einfaldi réttur að fólk búi við snefil af nútímasamgöngum eru alltaf sett í annað sætið á eftir öðrum hagsmunum sem klæddir eru í dulargervi náttúru- og umhverfisverndar.

Ég vil rifja aðeins upp. Menn hafa mikið velt fyrir sér hugsanlegu vegstæði á þessum slóðum og margir kostir hafa verið skoðaðir. Vegagerðin setti fram ýmsa valkosti en heimamenn og þingmenn á þeim tíma voru einróma sammála um að það ætti að fara svokallaða B-leið sem er vegurinn út Þorskafjörð með þverun um Djúpafjörð og Gufufjörð og að Melanesi, sem er rétt innan við Skálanes fyrir þá sem þekkja minna til.

Á sínum tíma kvað þáverandi hæstv. umhverfisráðherra upp úrskurð varðandi þessa vegagerð sem var ákveðin málamiðlun, mjög vel rökstuddur úrskurður sem tók tillit til margra sjónarmiða, m.a. umhverfissjónarmiða. Þá var eins og ekki mætti una því að þessi vegagerð gæti farið af stað, öllu var tjaldað til og núna erum við í þessari stöðu. Nýgenginn hæstaréttardómur er búinn að kollvarpa öllum áformum okkar um vegagerð á þessum slóðum og setja málið í hreint uppnám. Þess vegna er nauðsynlegt að spyrja hæstv. samgönguráðherra: Hvernig verður unnið áfram að uppbyggingu vegar frá Þorskafirði og að Skálanesi í kjölfar dóms Hæstaréttar?

Ég ætla að taka af öll tvímæli hvað mig áhrærir. Að mínu mati er ekki mönnum bjóðandi að ætla að fara með veginn upp Ódrjúgsháls og Hjallháls. Um þau mál ræddum við á sínum tíma. Þetta var einróma niðurstaða þingmanna og heimamanna þá og er örugglega núna. Ég tel að hæstv. ráðherra eigi strax að taka af öll tvímæli um þetta mál. Við fórum rækilega ofan í þessa spurningu á sínum tíma og þessari leið, að fara upp á Hjallháls og Ódrjúgsháls, var einfaldlega hafnað. Það er engin lausn að vaða með veginn upp á tvo hálsa þegar láglendisleiðin blasir við okkur.

Jarðgangakosturinn sem stundum er nefndur á þessum slóðum virðist útilokaður í ljósi fjárhagsaðstæðna og þess vegna virðist nærtækast að skoða betur vegagerð á þeim slóðum sem B-leiðin gerði ráð fyrir. Það má vel vera að finna þurfi aðra útfærslu og það er þá einfaldlega verkefni.

Í annan stað er allt í sömu óvissunni varðandi næsta áfanga verksins. Þar er ég að tala um veginn frá svokölluðu Eiði við Vattarfjörð og að Þverá í Kjálkafirði, alls 24 km leið þar sem möguleikar eru á vegstyttingu um hvorki meira né minna en allt að 9 km sem er þá 30–40% stytting á þessari leið. Hér er ég að vísa til þverunar bæði í Kjálkafirði og Mjóafirði.

Á sínum tíma óskuðum við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson eftir því að farið yrði í að leggja veg á þeim kafla þessarar leiðar sem óumdeildur væri og vegurinn yrði lagður í núverandi veglínu. Svarið sem við fengum frá Skipulagsstofnun og Vegagerð var að það væri ekki hægt samkvæmt lögum þar sem málið væri í kæruferli. Rétt er það. Eftir að Skipulagsstofnun hafði komist að þeirri niðurstöðu að þessi vegkafli þyrfti að fara í umhverfismat var því máli skotið til hæstv. umhverfisráðherra. Kærufrestur til ráðherra var til 28. apríl og því var sem sagt skotið til ráðherra fyrir þann tíma.

Samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum ber hæstv. ráðherra að úrskurða í kærumáli þessu samkvæmt þessari grein innan tveggja mánaða frá því að kærufrestur rennur út. Úrskurður hæstv. umhverfisráðherra átti sem sagt að vera tilbúinn 28. júní sl. Með öðrum orðum, fyrir fimm mánuðum síðan átti þessi úrskurður að liggja fyrir en ekkert bólar á honum enn þá. Á meðan er ekki hægt að huga að þeim möguleikum sem virðast þó nærtækastir á þessari leið, að reyna að fara í vegagerð á þeim slóðum þar sem ljóst er að ekki er verið að raska umhverfi. Við sjáum að þessar hugmyndir okkar um þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar eru í mikilli óvissu og guð einn veit hvenær verður hægt að fara í vegagerð á þessum slóðum.

Það er mjög lýsandi hvernig þessi mál öll ganga fyrir sig, m.a. þessi dráttur á úrskurði hæstv. ráðherra þegar þetta stórmál er á dagskrá. Því vil ég segja þetta að lokum: Við getum ekki unað því að vera dæmd til að bíða og bíða enn með þessi mál, bíða eftir því hvernig við bregðumst við dómi Hæstaréttar, bíða eftir að hæstv. umhverfisráðherra úrskurði fleiri mánuðum eftir að henni bar að hafa lokið verki, bíða eftir Godot, bíða með bráðnauðsynlegar framkvæmdir, bíða á meðan byggðirnar sem mestra hagsmuna eiga að gæta í Vestur- og Austur-Barðastrandasýslu skaðast. Þetta er hörmuleg staða og þetta gengur ekki, virðulegi forseti.