138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

framtíðaruppbygging á Vestfjarðavegi í kjölfar dóms Hæstaréttar.

[11:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem hefur verið mjög málefnaleg. Ég held að í henni hafi komið fram eindreginn vilji allra þeirra sem töluðu um að reynt yrði að hraða vegaframkvæmdum á þessu svæði og undrar engan sem þarna þekkir eitthvað til. Ég vil sérstaklega fagna yfirlýsingu hæstv. samgönguráðherra sem sagði að það væri æskilegast að fara láglendisleið. Þar með tel ég að hæstv. ráðherra sé að segja: Við ætlum ekki að fara með veginn um Hjallháls og Ódrjúgsháls, en sú umræða skýtur stöðugt upp kollinum þegar farið er að ræða um vegagerð á þessu svæði.

Hvernig er staða málsins? Hún er svona: Annars vegar erum við að tala um vegagerðina út Þorskafjörð frá Hallsteinsnesi yfir í Skálanes og yfir í Melanes. Hins vegar erum við að tala um vegagerðina frá Eiði í Vattarfirði yfir Kjálkafjörð að Þverá í Kjálkafirði. Fyrri leiðin er sú leið sem Hæstiréttur úrskurðaði um. Það er ljóst hvernig sem við horfum á það mál að þar eru fyrirsjáanlega miklar tafir. Hæstv. umhverfisráðherra liggur hins vegar á úrskurði sem hann hefði átt að vera búinn að kveða upp sem gerir að verkum að mjög óhægt er um vik að fara í mögulegar vegaframkvæmdir á seinni kaflanum sem ég nefndi áðan.

Þess vegna er mjög brýnt að hæstv. umhverfisráðherra ljúki því lögbundna verkefni sínu að kveða upp þennan úrskurð svo hægt sé að huga að því að leggja í lágmarksframkvæmdir á leiðinni frá Eiði í Vattarfirði að Þverá í Kjálkafirði. Það er sú hugmynd sem við ræddum í sumar. Þá var ekki hægt að framkvæma hana vegna þess að málið var í kæruferli. Það er enn statt í kæruferli þó að því eigi að vera löngu lokið. Þess vegna er afar brýnt að hæstv. umhverfisráðherra höggvi á þennan hnút, ljúki þessu máli þannig að hæstv. samgönguráðherra, Vegagerðin og aðrir sem málið varðar geti unnið að því að undirbúa frekari vegagerð á þessum slóðum. Þarna blasir við (Forseti hringir.) að það ætti að vera hægt að fara í vegagerð án þess að það kostaði (Forseti hringir.) eilífar deilur og málaferli eins og við þekkjum því miður allt of vel, allt of illa og allt of mikið á þessum slóðum.