138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

2. umr. um Icesave og kvöldfundur.

[11:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Næsta mál á dagskrá er frumvarp ríkisstjórnarinnar um Icesave-málið eins og kunnugt er. Ég vildi spyrja hæstv. forseta hvort það væri við hæfi að taka þetta mál á dagskrá í dag einmitt vegna þess að nú í morgun birtist í Fréttablaðinu grein eftir prófessor emeritus Sigurð Líndal, einn virtasta fræðimann Íslendinga á sviði lögfræði, þar sem hann rökstyður með mjög skýrum og greinargóðum hætti að uppi sé verulegur stjórnarskrárvafi varðandi gildi þessa frumvarps.

Sigurður Líndal bendir á að sú ríkisábyrgð sem lagt er til að hér verði samþykkt felur í sér óskilyrta ríkisábyrgð sem ekki takmarkast af neinum upphæðum og takmarkast ekki í tíma eins og þó mátti ráða af lögunum sem samþykkt voru í lok ágúst. Nú er ríkisábyrgðin sem sagt ótímabundin og mörkin varðandi fjárhæðirnar eru algjörlega út í loftið. (Forseti hringir.) Það er engin leið að segja hversu há þessi skuldbinding verður. (Forseti hringir.) Sigurður veltir upp þeim mikla vafa hvort þetta standist stjórnarskrá. (Forseti hringir.) Ég tel að hv. fjárlaganefnd þurfi að fara yfir þetta áður en við förum í þessa umræðu.