138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

2. umr. um Icesave og kvöldfundur.

[11:43]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir ummæli hv. þm. Birgis Ármannssonar og tel að þetta sé hið alvarlegasta mál.

Ég vildi líka nefna annað varðandi fundarstjórn forseta. Það var samþykkt naumlega í atkvæðagreiðslu áðan að hafa kvöldfund og ég vildi spyrja hæstv. forseta hvort hún geti upplýst þingheim um hversu lengi er áætlað að þingfundur muni standa. Ég vek athygli hæstv. forseta á því að á morgun og á mánudaginn eru kjördæmadagar og fyrir marga þingmenn er um langan veg að fara. Vegna þess að það hefur legið fyrir í starfsáætlun þingsins um langa hríð að nú séu kjördæmadagar hafa margir þingmenn, sérstaklega úti á landsbyggðinni, skipulagt fundi jafnvel í kvöld. Þess vegna er mjög óþægilegt að fara inn í þessa umræðu ekki vitandi hvenær henni muni ljúka. Við þurfum jú að sinna okkar skyldum í kjördæmunum. Ég óska eftir að hæstv. forseti (Forseti hringir.) upplýsi okkur um þetta.