138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

2. umræða um Icesave og kvöldfundur.

[11:52]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að taka jákvætt í að halda fund með þingflokksformönnum en verð samt að segja að það veldur mér vonbrigðum að sá fundur eigi ekki að vera fyrr en um kvöldmatarleytið. Frú forseti sagði að það væri ómögulegt að segja hvernig umræðan þróaðist og þess vegna væri ekki ástæða til að halda fundinn fyrr, en ég verð að lýsa mig mótfallna þeirri túlkun vegna þess að ég get upplýst hæstv. forseta um að þessi umræða mun standa langt fram á nótt ef kvöldfundur verður langt fram á nótt. Þá er alveg eins gott að við vitum það að hæstv. forseti ætlar að hafa okkur hér inn í nóttina og ræða þessi mál í skjóli myrkurs vegna þess að við þurfum að skipuleggja okkur, bæði í kjördæmunum og svo hefur verið bent á það líka að þetta snýst um það að við eigum fjölskyldur eins og aðrir.

Fyrir þingmann sem þarf að keyra til Víkur í Mýrdal á fund kl. 8 í kvöld svo ég nefni dæmi (Forseti hringir.) er fundur þingflokksformanna um kvöldmatarleytið að sjálfsögðu of seint á dagskrá og ekki ætlast frú forseti til þess (Forseti hringir.) að okkur þingmönnum verði meinað að fylgjast með og taka þátt í þessari mikilvægu umræðu.