138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

2. umræða um Icesave og kvöldfundur.

[11:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Mikið þykir mér þetta allt saman undarlegt. Hvernig í ósköpunum stendur á því að ekki er hægt að upplýsa þingmenn um það, ef á að láta þá vera fram eftir kvöldi, hversu lengi þeir eigi að sitja hérna? Þetta er farið að líta út eins og verið sé að nota þingsköpin til að gera stjórnarandstöðunni lífið leitt. Maður getur ekki annað en sett þetta í samhengi við dæmalaust viðtal við hæstv. utanríkisráðherra við Reuters-fréttaveituna þar sem hann talaði um Icesave-málið á þeim nótum að það þyrfti að rumpa því af, koma því frá til að hægt væri að sinna Evrópusambandinu betur og til að vinsældir Evrópusambandsins mundu aukast. Hann taldi líklegt að þessi Icesave-umræða skaðaði eitthvað vinsældir Evrópusambandsins. Er það virkilega svo, frú forseti, að það eigi að nota þingsköp til að gera stjórnarandstöðunni lífið leitt og reyna að rumpa þessu máli af án þess að nokkur ráðherra ríkisstjórnarinnar hlusti á það?