138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

2. umræða um Icesave og kvöldfundur.

[11:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hvernig má það vera að ekki sé hægt að koma við fundi með þingflokksformönnum fyrr en um kvöldmatarleytið? Hefur það yfirleitt verið kannað? Hér hafa þingflokksformenn úr stjórnarandstöðu lýst sig tilbúna til að funda strax. Ég held að það hljóti að vera hægt að finna einhvern fulltrúa stjórnarflokkanna, þótt ég sjái reyndar ekki marga þingmenn stjórnarflokkanna í salnum núna, til að mæta á fund til að ákveða hversu lengi þingfundur á að standa í kvöld. Er það ekki sjálfsögð krafa þingmanna að þeir fái að vita hversu lengi þeir eigi að vera í vinnunni á fimmtudagskvöldi, sérstaklega í ljósi þess sem hér hefur verið nefnt um fundi sem hafa verið skipulagðir víða um land? Í raun má segja að verið sé að vinna gegn lýðræðislegri umræðu með því að halda þinginu í gíslingu og koma í veg fyrir þann hluta lýðræðisins sem felst í fundum með kjósendum víða um landið.

Ég skora á hæstv. forseta að koma þessum fundi þingflokksformanna á sem allra fyrst.